NTC

Fantasían Ólafur Liljurós frumflutt á Nýárstónleikum SN

Fantasían Ólafur Liljurós frumflutt á Nýárstónleikum SN

Tónskáldið Michael Jón Clarke hefur samið sinfóníuna Ólafur Liljurós sem frumflutt verður á Nýárstónleikum Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í janúar.

„Fantasían Ólafur Liljurós er sérstaklega samin fyrir SN og þar er tefld fram stórskotaliði sveitarinnar ásamt fimm einsöngvurum. Þulan velkunna af Ólafi og hans viðureign við myrkraöfl huldukonu er vel þekkt og á rætur sínar í evrópskri þjóðmenningu. Litríkt ævintýri þar sem Ólafur Liljurós berst fyrir heiðri sínum við álfakóng. Hann fer í tónlistarferðalag ekki bara til hulduheima, en einnig til villta vestursins, einnar kvikmynda Hithcocks og Hrafns Gunnlaugssonar, tónheima Händels og Jóhanns Strauss. Verkið er í senn spaugilegt, stórfenglegt, púkalegt en líka fullt af ástríðu og rómantík,“ segir Michael Jón sem verður með kynningu í Hofi fyrir þessa hátíðlegu dagskrá.

Glæsilegir nýárstónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands undir stjórn Daníels Þorsteinssonar ásamt stórsöngvurunum Þóru Einarsdóttur, Andra Birni Róbertssyni, Hönnu Dóru Sturludóttur, Gísla Rúnari Víðissyni og Degi Þorgrímssyni verða haldnir í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri þann 14. janúar. Fögnum nýárinu í Hofi með glæsibrag en Daníel hefur sett saman hátíðlega og stórskemmtilega dagskrá í tilefni þess. Fluttir verða valsar, polkar, forleikir og aríur eftir tónskáld á borð við Johann Strauss, Sergei Prokofiev o.fl og munu gestir fá að njóta þessarar hátíðardagskrár í Hamraborg. 

Miðasala er í fullum gangi á mak.is.

Sambíó

UMMÆLI