Fangelsinu á Akureyri verður lokað í næstu viku, þann 15. september. Þetta staðfestir Gestur Ragnar Davíðsson, varðstjóri í fangelsinu á Akureyri, í samtali við Rúv. Við lokunina missa sex starfsmenn vinnuna.
Tilkynnt var um fyrirætlaða lokun fangelsisins í júlí en hún var harðlega gagnrýnd. Ástæður gefnar fyrir lokuninni voru þær að nýta átti betur það fjármagn sem fer í rekstur fangelsa. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, frestaði þá lokuninni til 15. september og nú hefur það verið gefið út að af henni verður. Gestur segist hafa átt von á því að hætt yrði við lokunina en honum barst staðfesting á lokuninni fyrir hádegi í dag skv. frétt Rúv.
Hann telur það mistök að loka fangelsinu þar sem þessi eining hafi skilað hvað bestum árangri í fangakerfinu og þetta sé þjónusta sem þurfi að vera á Norðurlandi. Ákvörðunin hafi verið tekin en enn eigi hann eftir að sjá forsendur fyrir henni.
UMMÆLI