NTC

Fá ekki leikskólapláss fyrir börn sín

Fyrir nokkru var leikskólinn gerður upp og stækkaður, meðal annars til þess að geta veitt dagvistun frá þeim tíma er fæðingarorlofi lýkur

Byggðaráð Dalvíkurbyggðar fundaði í gær og og tekið var fyrir málefni frá tveimur hjónum þar sem fjallað var um skort á leikskólaplássi í sveitarfélginu. Foreldrar í Dalvíkurbyggð sjá ekki fram á að fá pláss á leikskóla fyrir börnin sín fyrr en næsta haust. Eins og er eru engin dagforeldri í sveitarfélaginu, en hingað til hafi ekki þótt markaður fyrir slíka starfsemi og veldur þetta miklum áhyggjum hjá bæjarbúum.

„Ég fer þá bara í launalaust leyfi þangað til í ágúst-september. Það er bara kvíðahnútur í magann, við erum fimm í fjölskyldunni sem þarf að framfleyta þannig það munar um það ef annað foreldrið missir launin,“ segir Júlíana Kristjánsdóttir íbúi á Dalvík en hún ætlaði að byrja að vinna í mars þegar dóttir hennar væri orðin árs gömul.

Samkvæmt reglum leikskólans eru börn, tveggja ára og eldri, í forgangi, en reynt er að taka inn yngri börn ef kostur er, en Hlynur Sigursveinsson, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Dalvíkurbyggðar, segir að stefna bæjaryfirvalda sé að börn komist inn á leikskóla um níu mánaða aldur.

Nýlega var leikskólinn stækkaður og gerður upp til þess að geta veitt aðgang að dagvistun en erfitt hefur verið að halda í þá áætlun vegna manneklu. „Við erum búin að auglýsa og erum að tala við umsækjendur. Síðan verður staðan tekin í framhaldinu, hvort við þurfum að auglýsa aftur eða hvort við getum leyst þörfina sem er til staðar, það er verið að vinna að lausn málsins og sú vinna er alveg á fullu,“ segir Hlynur.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó