Eyjafjörður – miðstöð fjarnáms á Norðurslóðum

Eyjafjörður – miðstöð fjarnáms á Norðurslóðum

Kári Gautason skrifar:

Í skýrslu Grænlandsnefndar, sem er nýkomin út, er sýnt á sannfærandi hátt fram á gagnkvæma hagsmuni Íslendinga og Grænlendinga af stórauknu samstarfi og samvinnu við nýjar aðstæður á Norðurslóðum. Bæjarstjórn Akureyrar hefur brugðist við niðurstöðum skýrslunnar af mikilli snerpu og þegar komið á framfæri tillögum til stjórnvalda um það hvernig  norð-austurhornið, og Akureyri alveg sérstaklega, geti komið við sögu með því að rækta samskiptin og nýta tækifærin. Bærinn er miðstöð málefna Norðurslóða á Íslandi og hefur metnað til þess að vera það áfram. Það þarf að sýna í verki og fylgja eftir á Alþingi.

 Akureyringar bjóða meðal annars húsnæði undir nýtt Norðurslóðasetur í keppni við Reykjavík og útskipunarhöfn í Eyjafirði í tengslum við viðskiptasamning. Tillögur bæjarstjórnar um samskipti við Austur-Grænland í samgöngum, heilbrigðismálum, félagsmálum og samfélagsaðstoð eru til fyrirmyndar og þeim verður vonandi sýndur áhugi af fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum.

Framúrskarandi verkefni

Tillagan um þriggja ára tilraunaverkefni í innleiðingu fjarnáms við háskólann í Nuuk og tilboð um þróun fjarnáms á verkmennta- og framhaldsskólastigi í Grænlandi, eru framúrskarandi verkefni. Við áttum okkur  ekki alltaf á því hversu framarlega við stöndum í fjarnámi miðað við önnur lönd. Sú staða byggist að verulegu leyti á brautryðjendastarfi Norðlendinga, á Akureyri, Kópaskeri og á Tröllaskaga. Þar hefur Menntaskólinn verið í forystu fjarnáms og meðal annars tryggt að íslenskar íþróttafjölskyldur um allan heim geti haldið áfram námi.

 Háskólinn á Akureyri er einn örfárra háskóla í heiminum sem byggir kennslulíkan sitt á fjarnámi. HA hefur þegar tekið merkilegt frumkvæði um samstarfstengsl við háskóla í sjávarplássum við Norður-Atlantshaf. Með þeirri sérhæfingu sem HA hefur á sviðum fjarmenntunar, sjávarútvegsfræða og Norðurslóða gæti HA orðið leiðandi í slíku neti.

 Samstarfssamningur milli Háskólans á Akureyri og Háskóla Grænlands í Nuuk hefur verið undirritaður. HA gæti aðstoðað við að koma upp sjávarútvegsbraut í Nuuk en um leið lært af Grænlendingum hvernig hægt er að byggja upp öflugt doktorsnám við lítinn háskóla. Það er nefnilega gagnkvæmur ávinningur af samstarfi sem þessu eins og sýnt er fram á í Grænlandsskýrslunni.

Höfundur er í forvali fyrir VG í NA kjördæmi

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó