Gæludýr.is

Eyfirðingurinn sem setti mark sitt á dægurmenningu heimsins

Eyfirðingurinn sem setti mark sitt á dægurmenningu heimsins

Kann að vera að Mjallhvít, Elmer Fudd og Kalli kanína eigi ættir að rekja til Íslands? Færa má rök fyrir því að þessar teiknimyndafígúrur og fleiri geti þakkað tilvist sína tveimur Íslendingum sem áttu samleið í Ameríku á fyrri hluta 20. aldar. Ekki er nóg með að tengslin við Ísland séu sterk heldur má með nokkrum sanni segja að sköpun Kalla kanínu og félaga megi rekja alla leið til Eyjafjarðar.

Hæfileikar koma fram

Við hefjum leiðangurinn að þessu sinni árið 1887. Þá ákváðu hjónin Stefán Þórðarson og Sigríður Þórarinsdóttir að flytja burt úr Biskupstungunum vestur um haf. Þau héldu af stað með vesturfaraskipinu SS Camoens frá Reykjavík, ásamt Jóni þriggja ára syni þeirra, áleiðis til Winnipeg í Kanada. Skipið sigldi reglulega frá Íslandi á þessum árum með fólk í leit að betra lífi í Ameríku. Fór það m.a. þónokkrar ferðir frá Akureyri, þá fyrstu árið 1879. Í Kanada eignuðust hjónin þrjá drengi til viðbótar. Einn þeirra fæddist árið 1890 og var skírður Karl Gústaf. Listrænir hæfileikar Karls komu fljótt í ljós og þóttu hæfileikar hans miklir þegar kom að teikningum. Eftir að myndir hans fóru að birtast opinberlega tók hann sér upp nafnið Charles Thorson. Fyrsta teikning hans á opinberum vettvangi birtist á forsíðu fréttablaðsins Heimskringla árið 1909, þegar hann var 19 ára gamall. Teikningin sýnir tvo menn standa hlið við hlið. Annar þeirra er maður að nafni Fred Swanson en hann átti síðar eftir að verða tengdafaðir Thorson.

Vinna hjá Disney og Warner Brothers

Árið 1932 hitti Thorson unga íslenska stúlku á kaffihúsi í Winnipeg. Hún hét Kristín Sölvadóttir, fædd á Siglufirði árið 1912. Thorson féll fyrir hinni 22 ára gömlu Kristínu en sjálfur var hann 42 ára. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að heilla hana upp úr skónum skildu leiðir árið 1934 þegar Thorson hélt til Hollywood þar sem hann hóf störf hjá Disney. Eitt af hans aðalverkum var vinna við gerð teiknimyndarinnar Mjallhvít og dvergarnir sjö en hún var frumsýnd árið 1937. Thorson tilheyrði vinnuteymi sem skapaði útlit persóna myndarinnar, þar með talið dverganna og Mjallhvítar. Segir sagan að útlit þeirra, sem hefur allar götur síðan verið notað til að túlka persónurnar í myndum og bókum, sé að mestu eða öllu leyti skapað af Charles Thorson. Fyrirmynd hans að Mjallhvíti var unga stúlkan frá Siglufirði, Kristín Sölvadóttir. Eftir ágreining við stjórann sjálfan, Walt Disney, árið 1937 hætti Thorson störfum hjá fyrirtækinu. Hann réði sig síðar hjá þremur teiknimyndaverum, m.a. Warner Brothers þar sem hann starfaði í tvö ár. Hjá WB var honum fengið það hlutverk að kenna ungum leikstjóra réttu handtökin við gerð teiknimynda. Sá var að hefja sinn feril í heimi teiknimyndanna og hét Chuck Jones. Hann átti eftir að verða eitt stærsta og þekktasta nafn teiknimyndaheimsins. Einhver þekktasta teiknimyndapersóna sem Thorson skapaði árin sem hann vann fyrir Warner Brothers var engin önnur en Bugs Bunny eða Kalli kanína. Á 10 ára starfsferli sínum hjá teiknimyndafyrirtækjum í Ameríku skapaði Charles Thorson meira en 100 teiknimyndapersónur.

Forsíða ævisögu Charles Thorson sem kom út 1998.

Lærimeistarinn Friðrik Sveinsson

Á uppvaxtarárum Thorson í Kanada, þegar listrænir hæfileikar hans voru að koma í ljós, var einn maður sem hann leit sérstaklega á sem fyrirmynd við listsköpun sína. Sá var málari en vann einnig að listsköpun ýmiskonar. Hann var nokkurs konar lærimeistari Thorson og sá einstaklingur sem mótaði hann hvað mest sem listamann. Er hann þannig talinn eiga sinn þátt í að Thorson nýtti hæfileika sína í þágu teiknimynda. Maðurinn sem um er rætt bjó í Aðalstræti á Akureyri um nokkurra ára skeið áður en hann flutti til Kanada. Hér er að sjálfsögðu átt við áðurnefndan Fred Swanson, bróður hins kunna rithöfundar Jóns Sveinssonar (Nonna). Friðrik Sveinsson var sonur hjónanna Sveins Þórarinssonar og Sigríðar Jónsdóttur. Hann fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal en flutti í Aðalstræti 54 eins árs gamall árið 1865. Þar bjó hann í nokkur ár áður en hann var sendur í fóstur að bænum Espihóli í Eyjafirði. Eftir að Friðrik kom til Ameríku tók hann sér upp nafnið Fred Swanson.

Beðið eftir að komast til Ameríku

Talið er að u.þ.b. 15.000 Íslendingar hafi sest að í Norður-Ameríku á árunum 1870 – 1914. Fyrsti stóri Íslendingahópurinn sem fór með skipi vestur um haf frá Akureyri lagði af stað þann 4. ágúst árið 1873.  Þar er því um nokkuð merkilega siglingu að ræða. Skoskt gufuskip, Queen að nafni, en það flutti aðallega hross, hélt úr Akureyrarhöfn með 165 manns innanborðs. Einn af farþegunum var Ólafur Ólafsson bóndi á Espihóli. Hann hafði dreymt lengi um betra líf handa sér og fjölskyldu sinni í Ameríku og ákvað því að freista gæfunnar. Með honum í för var eiginkona hans og tveir fóstursynir. Hópurinn kom til Kanada í lok mánaðarins. Annar fóstursona hjónanna á Espihóli var Friðrik Sveinsson. Til er blaðagrein þar sem Friðrik segir frá því þegar hann, 9 ára gamall, beið eftir komu skipsins sem átti að flytja hann og fósturfjölskyldu hans til Ameríku. Skipið hafði tafist og þurfti fólkið að bíða á Akureyri dögum saman. Krakkarnir í hópnum hlupu daglega upp í brekkuna ofan við Aðalstræti til að horfa út fjörðinn í von um að sjá skipið koma. „Á hverjum degi var skimað eftir skipinu. Eg fór oft með öðrum börnum uppá hjallann fyrir ofan bæinn að horfa út fjörðinn eftir skipinu, og loksins, eg held 3. ágúst — sáum við svarta þústu út í fjarðarmynni og kolareyk upp úr. Við þutum niður í bæinn með þennanfagnaðarboðskap. Skipið kom von bráðar inn á höfnina og lagðist þar. — Var þetta skuggalegur breiður kuggur og fanst sumum hann helst líkjast þrælaskipum, sem blámenn voru fluttir á frá Afríku. Skipið hét „Queen“ en ekki þótti löndum það drotningarlegt.“

Friðrik Sveinsson, lærimeistari Charles Thorson, bjó í Nonnahúsi.

Róstusamt líf skaparans

Ekki var nóg með að Karl Gústaf Stefánsson liti á Friðrik Sveinsson sem lærimeistara sinn  heldur tengdust þeir einnig fjölskylduböndum. Í október árið 1914 giftist Karl dóttur Friðriks. Hún hét Rannveig en var oftast kölluð Ranka. Þau eignuðust son sem fæddist í ágúst sama ár. Hann var skírður í höfuðið á pabba sínum, Karl en var kallaður Charlie. Sorgin knúði dyra árið 1916 þegar Rannveig dó úr berklum og aftur árið 1917 þegar Charlie litli dó úr barnaveiki. Árið 1922 giftist Karl öðru sinni, konu að nafni Ada Teslock. Hjónabandið stóð yfir í 10 ár. Þau eignuðust tvo syni. Sá eldri, Charlie, dó aðeins þriggja daga gamall. Hinn yngri, Stephen, komst á legg og eignaðist þrjú börn. Karl Gústaf Stefánsson lést úr krabbameini í Vancouver í Kanada árið 1966.

Friðrik og Nonni

Aðalstræti 54 hefur að geyma forvitnilega sögu þegar kemur að barnamenningu. Allir þekkja sögu Nonna og bókanna hans. Sögu Friðriks þekkja færri. Hún er þó ekki síður athyglisverð. Hvor á sinn hátt áttu þeir bræður þátt í að gleðja börn um víða veröld eftir að þeir fluttu erlendis. Annar með því að skrifa barnabækur. Hinn með því að veita innblástur og kenna réttu handtökin við sköpun frægra teiknimyndafígúra. Friðrik hitti Nonna tvisvar eftir að þeir voru aðskildir í æsku. Fyrra skiptið var 60 árum eftir aðskilnaðinn, á Alþingishátíðinni árið 1930. Seinna skiptið var árið 1936 þegar Nonni heimsótti bróður sinn í Kanada á ferð sinni um heiminn. Friðrik Sveinsson giftist Sigríði Laxdal og átti með henni fjórar dætur auk Rannveigar. Auk hefðbundinnar málningarvinnu vann hann m.a. við að útbúa steinda glugga í kirkjur.  Friðrik Sveinsson dó í Winnipeg í Kanada árið 1942.

Brynjar Karl Óttarsson.

Greinin birtist upphaflega á heimasíðu Grenndargralsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó