Stjórn Menningarfélags Akureyrar hefur ráðið Evu Hrund Einarsdóttur í starf framkvæmdastjóra. Eva Hrund er menntaður viðskiptafræðingur með áherslu á fjármál og stjórnun og með MLM nám í forystu og stjórnun. Hún starfaði um tíu ára skeið sem fjármála- og starfsmannastjóri hjá Lostæti ehf og hefur setið í bæjarstjórn Akureyrar frá árinu 2014.
Alls sóttu 16 manns um starfið og var umsóknarferlinu stýrt af Mögnum Ráðningum. „Eva Hrund hefur góða þekkingu á bæði rekstri og mannauðsmálum sem mun sannarlega nýtast vel í spennandi og krefjandi starfi framkvæmdarstjóra,“ segir Brynhildur Pétursdóttir formaður stjórnar Menningarfélagsins.
Eva Hrund tekur við starfinu af Þuríði Helgu Kristjánsdóttur sem sagði starfi sínu lausu í janúar. „Á sama tíma og stjórn Menningarfélagsins þakkar Þuríði Helgu fyrir farsælt samstarf og óskar henni velfarnaðar í nýjum ævintýrum býður stjórnin Evu Hrund innilega velkomna til starfa,“ segir í tilkynningu.
Menningarfélag Akureyrar rekur Leikfélag Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, og Menningarhúsið Hof.
UMMÆLI