Blaðamannaverðlaun ársins 2024 voru veitt í gær þar sem Freyr Gígja Gunnarsson, fréttamaður á RÚV, hlaut verðlaun fyrir fréttaskýringar í Speglinum. Akureyringurinn Eva Björk Benediktsdóttir, fréttamaður á RÚV, hlaut verðlaun fyrir viðtal árins. Viðtalið tók hún við Hafdísi Báru Óskarsdóttur sem varð fyrir lífshættulegri árás af hendi barnsföður síns.
Eva brautskráðist með BA gráðu í fjölmiðlafræði árið 2017 og óskaði Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor HA, henni til hamingju á Facebook- síðu HA. „Fyrir hönd Háskólans á Akureyri óska ég Evu Björk innilega til hamingju með viðurkenninguna sem hún er svo sannarlega vel að komin. Það er alltaf gaman að sjá þegar fyrrum stúdentum háskólans vegnar vel í starfi.“
„Ég er stolt og þakklát, sér í lagi að fá viðurkenningu fyrir þetta viðtal því málefnið stendur mér mjög nærri,“ segir Eva Björk við Akureyri.net. „Hafdís Bára sýndi svo mikið hugrekki að segja frá öllu því sem gekk á og var skýr og heiðarleg í sinni frásögn. Við höfðum verið í sambandi vikum saman vegna ástandsins og ég held að traustið sem við bárum hvor til annarrar í þessu hafi skilað sér í viðtalinu.“