Erum við virkilega að standa okkur sem þjóð varðandi komandi kynslóðir?Kristbjörg Heiður Kristjánsdóttir skrifar:

Erum við virkilega að standa okkur sem þjóð varðandi komandi kynslóðir?

Í skólum er lögð áhersla á félagsfræði, stærðfræði, líffræði og aðrar slíkar greinar. Þessar greinar geta verið mikilvægar fyrir áframhaldandi nám og tilfinningu fólks fyrir sögu og fortíð heimsins. Þrátt fyrir það er margt sem vantar í grunnskóla jafnt og framhaldsskóla sem er nauðsynlegt að vita í lífinu. Meðal annars er ekki er lögð áhersla á að krakkar kunni á fjármál og er nánast engin fjármálafræðsla, hvorki í skólum né inni á heimilum. Miðað við hlutföllin á milli launa og verðs hluta á íslandi í dag, þá þarf að kunna að fara með þá peninga sem unnið er fyrir til þess að geta búið sér til gott líf.

Skólar og foreldrar eru ekki að standa sig í því að leggja þessar upplýsingar á borðið fyrir börnin sín, og hefur það mikil áhrif á peningavit unglinga. Það er þeirra hlutverk að fræða börnin og gera þau tilbúin til að flytja út og takast við lífið á eigin spítur. En miðað við unglinga sem ég umgengst áttar sig nánast enginn á því hversu stutt það er í það að við þurfum að kunna að spjara okkur sjálf og geta ráðstafað peningunum okkar skynsamlega.

 Unglingar í dag eru margir ekki með gott peningavit en það er að miklum hluta vegna þess að þau átta sig ekki á því hversu mikilvægir peningarnir sem þau safna sér núna eru, og það þarf einhvern til þess að segja þeim það. Það þarf að segja þeim hvernig er best að fara með peningana sína, hvaða sparnaðarleiðir þau geta nýtt sér, kenna þeim hvernig bankareikningar, kredidkort, debitkort, skattar, og margt, margt fleira virkar. Þau þurfa að kunna að lesa launaseðlana sína svo þau fái það sem þau eiga skilið miðað við vinnuna sem þau vinna o.s.v.

Einnig þarf að hugsa um framtíðina. Hvernig á komandi kynslóð að geta bjargað sér þegar það vex úr grasi ef hún veit ekki neitt um neitt sem skiptir virkilega máli? En er í staðinn reiprennandi í dönsku og kann að reikna fimmta stigs margliðu? Hvernig á samfélagið að virka ef við kunnum ekki á það? Og er það virkilega okkar hlutverk sem unglingar að passa upp á það að foreldrar okkar og skólar kenni okkur það?

Sorglegt er samt að þó svo að okkur yrði kennt að fara með peninga á skynsamlegann hátt börn og þó svo að við værum með góða sparnaðaráætlun, þá er leigu og húsamarkaðurinn í dag allt of hár. Fólkið sem ég þekki er að borga að meðaltali 120.000-140.000 kr á mánuði í leigu á tveggja herbergja íbúð. Inni í þessu verði er ekki innifalið rafmagn eða net, sem hækkar verðið töluvert. Þessi verð gera það rosalega erfitt fyrir unglinga að geta flutt út og byrjað að lifa sjálfstæðu lífi án þess að taka himinhátt lán sem að á eftir að sitja yfir hausunum á þeim restina af lífinu þeirra. Út af þessari neikvæðu þróun eru unglingar lengur heima hjá foreldrum sínum og læra því seinna og seinna í lífinu hvernig það er að vera fullorðinn og fá að búa sjálfstætt. Getur ríkið virkilega búist við því að 18 ára unglingar flytji út nánast skuldlausir, átt gott líf, gefið til baka til landsins og verið í námi á meðan landið er svona statt?

Meðal-unglingur þarf að vinna fulla vinnu til þess að eiga efni á því að leigja tveggja herbergja íbúð á Akureyri, og ekki batna verð þegar sunnar er komið á landið. Jafnvel þá er ekki víst að hann muni eiga fyrir mat og öllum nauðsynjum. Þetta er sorgleg þróun og það fer fyrir hjartað á mér að heyra það frá fulorðnu fólki að þeim finnist unglingar nú til dags aðeins latir, og vegna þess búi þeir ennþá heima hjá foreldrum sínum, þegar raunin er sú að þó svo að það sé unnið með skóla og unnið öll sumör, þá er bara ekki möguleiki fyrir okkur að flytja út fyrr. Margir nútíma unglingar vinna meira heldur en margir fullorðnir. Við erum í skóla til klukkan fjögur, alla virka daga, vinnum heimanámið okkar eftir þann tíma og margir fara svo beint í vinnuna. Svo, nei við erum ekki öll löt eða ofdekruð af því að við búum ennþá heima.

Ég vil geta átt gott líf án þess að hafa stanslausar áhyggjur af fjármálum. Ég vil geta lifað lífinu og ferðast um ísland eða jafnvel utan við landssteina án þess að þurfa að vinna í 6 ár áður en ég mun eiga efni á því. Staðan á landinu er ekki góð eins og staðan er í dag, og það eina sem ég bið um er að fólk viðurkenni að okkar kynslóð vinni alla daga, kvöld og morna, virka daga og helgar, og við erum að gera okkar besta til þess að lifa í samfélaginu eins og það er statt í dag. Áður en þið farið að mynda fordóma fyrir okkur, þá er mikilvægt að þið setjið ykkur í spor okkar og horfið á lífið frá okkar sjónarhorni.

Kristbjörg Heiður Kristjánsdóttir, nemandi við Menntaskólann á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó