Gæludýr.is

Er rétt að stytta framhaldsskólanám?

Jón Smári Hansson skrifar

Menntamálaráðuneytið hefur upp á síðkastið viljað flýta innkomu ungmenna á vinnumarkaðinn og hafa fyrirkomulagið svipað og í öðrum löndum. Menntamálaráðuneytið gaf þá út yfirlýsingu þess efnis og ákvað að breyta framhaldsskólum verulega og stytta þá um heilt ár. Nú er framhaldsskólanám á Íslandi þrjú ár í stað fjögurra eins og áður var.

Það er stór breyting að stytta framhaldsskólanám um fjórðung. Þá þarf að taka út einhverja áfanga og þjappa saman skólaárinu sem á eftir kemur til þess að koma þessu ári fyrir í menntun fólksins. Þegar ég gekk í framhaldsskóla s.l. haust var þessi breyting keyrð í gegn í fyrsta skipti í MA. Við sem fædd erum árið 2000 höfum oft verið kölluð „tilraunadýr“ vegna þess að við erum fyrsta fólkið sem upplifir þessa breytingu í MA.

Kostir og gallar við breytinguna
Kosturinn við þessa breytingu er sá að við erum ári styttra að mennta okkur. Því miður finnst mér það vera eini kosturinn við þessa breytingu. Gallarnir eru á hinn bóginn mun fleiri. Álagið sem leggst á okkur í kjölfarið er langstærsti gallinn. Álagið sem sýgur til sín alla orku og tíma. Það er alltaf erfitt að vera lengi í skólanum og það er það erfiðasta við nýja fyrirkomulagið. Skóladagurinn er frá 8:15-16:30, fjóra daga vikunnar (8:15-14:35 á föstudögum) og þá er alltaf erfitt að læra í seinustu tveimur tímum dagsins þar sem þreytan er orðin mikil.

Erfiðið
Erfitt er fyrir 16 ára ungling að læra allan daginn, alla daga, og síðan læra meira um helgar til þess að geta verið með á nótunum í vikunni á eftir. Unglingsaldurinn á að vera skemmtilegasti tími í lífi flestra. Hins vegar hef ég miklar áhyggjur af því að þessi breyting geti eyðilagt þennan tíma. Enginn tími gefst til þess að lifa, heldur einungis til að læra.

Rannsóknir sýna einnig að einkenni þunglyndis fara vaxandi hjá ungmennum í dag. Þess vegna hljómar illa í eyrum að setja enn meira álag á þeirra herðar (Ingvi Hrannar Ómarsson, 2017).

Hvernig er hægt að laga þetta?
Mér hefur alltaf fundist slæm hugmynd að þétta nám í framhaldsskóla. Að mínu mati ætti að þétta námið í grunnskólanum svo krakkarnir gætu komið fyrr í framhaldsskóla. Sem nýútskrifaður grunnskólanemandi get ég sagt að miðað við það álag sem ég þoli í dag í framhaldsskóla, hefði ég geta þolað a.m.k. tvöfalt meira álag í grunnskóla. Grunnskólinn nær yfir miklu lengri tíma en framhaldsskólinn og þar með gefst meira svigrúm til þess að stytta hann á kostnað framhaldsskólans.

Jón Smári Hansson

Heimild:  

Ingvi Hrannar Ómarsson. (2017). Við erum að éta börnin okkar. Ingvi H. Ómarsson [blogg). Sótt af: http://ingvihrannar.com/viderumadetaborninokkar/

 

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó