Í gær sagði Grenndargralið frá skemmtilegum fundi við upphaf aðventu á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Heimildaleit þriggja nemenda í MA leiddi í ljós að kassi á safninu hafði að geyma 136 ára gamlar húsateikningar af veitingahúsinu Jensensbauk sem stóð við Aðalstræti 12 og brann þann 19. desember árið 1901. Teikningar Jóns Chr. Stephánssonar timburmeistara voru þó ekki einu gersemarnar sem komu upp úr kassanum.
Árið 1884 reis timburhús í suðurhluta bæjarins, n.t.t. við Strandgötu 33. Eigandi þess, veitingamaðurinn Ólafur Jónsson rak Hótel Oddeyri í húsinu til dánardags árið 1898. Eiginkona hans Anna Tómasdóttir tók við rekstrinum að honum látnum. Anna stóð fyrir sannkallaðri andlitsupplyftingu á húsnæðinu árið 1905. Ekki aðeins stækkaði hún hótelið til norðurs, heldur og lét hún byggja tvo turna við sinn hvorn endann á framhlið hússins og framstæða útbyggingu á milli þeirra. Viðbyggingin í norðurátt hýsti stóran sal með öllum helstu nútímaþægindum þess tíma í líkingu við það sem þekktist á gistihúsum úti í hinum stóra heimi. Í turnunum og útbyggingunni voru samtals níu herbergi, þrjú í hverri einingu hvert yfir öðru, með útsýni í allar áttir, þó ekki til norðurs. Framkvæmdagleði Önnu skilaði sér – að mati Grenndargralsins – í einhverri fallegustu húsbyggingu sem risið hefur í bænum. Gamanið stóð þó stutt yfir því hótelið brann til kaldra kola þann 18. október árið 1908.
Líftími Hótels Oddeyrar, eftir breytingarnar 1905, spannar ekki langan tíma. Á þessum þremur árum eða svo voru ýmsar samkomur haldnar á hótelinu sem nafntogaðir einstaklingar tóku þátt í og dagblöðin fjölluðu um. Í mars árið 1906 kom skáld í heimsókn á hótelið. Guðmundur Friðjónsson frá Sandi í Aðaldal var þá með fyrirlestur fyrir framan fullan sal af fólki. Í lok fyrirlestrarins las skáldið upp nýtt, frumsamið ljóð. Í júní sama ár héldu tónskáldið Sigfús Einarsson og söngkonan Valborg Einarsson tónleika í nýjum og glæsilegum sal hótelsins. Þau höfðu gift sig um vorið í Kaupmannahöfn og ferðuðust um landið þetta sumar til að skemmta landsmönnum. Meðal sönglaga sem nýgifta parið flutti á Hótel Oddeyri var lag sem tónskáldið hafði þá nýlega samið. Það hét Draumalandið. Fundahöld voru tíð á Hótel Oddeyri. Viku eftir tónleika Sigfúsar og Valborgar var Gránufélagið með fund á hótelinu. Á þessum árum kepptust landsmenn um að safna fyrir byggingu heilsuhælis á Vífilsstöðum. Stofnfundur Akureyrardeildar Heilsuhælisfélagsins var haldinn um miðjan febrúar 1907. Þá hélt Heimastjórnarfélag Akureyrar fund á hótelinu í maí 1908. Efni fundarins var Sambandslagafrumvarpið. Rétt um mánuði eftir fund Heimastjórnarmanna kom Hannes Hafstein í bæinn. Bæjarbúar tóku vel á móti ráðherranum á Hótel Oddeyri.
Sömu helgi og Hannes Hafstein hitti bæjarbúa á Hótel Oddeyri, tóku 14 glímukappar þátt í Íslandsglímunni á Akureyri. Keppt var um Grettisbeltið. Hlutskarpastur varð Jóhannes Jósefsson. Mótið var vel sótt, ekki síst vegna þess að safna átti fjármunum til styrktar þátttöku Íslendinga í fyrsta skipti á Ólympíuleikum þetta sama ár. Samtakamátturinn skilaði árangri og Jóhannes var í broddi fylkingar þeirra glímumanna sem sýndu íslenska glímu á Olympíuleikunum í London. Ein síðasta samkoman á Hótel Oddeyri sem dagblöðin segja frá, áður en húsið varð eldi að bráð, var samsæti sem haldið var glímumönnunum til heiðurs eftir frægðarförina til London. Einum og hálfum mánuði síðar fuðraði Hótel Oddeyri við Strandgötu 33 upp.
Auk teikninga af Jensensbauk hafði kassinn á Héraðsskjalasafninu að geyma húsateikningar af Hótel Oddeyri frá árinu 1905. Þó ítarleg rannsókn hafi ekki enn farið fram á teikningunum verður að teljast líklegt að þarna sé um að ræða teikningar sem notast var við þegar Anna Tómasdóttir lét stækka hótelið til norðurs og skreyta það með turnum að sunnanverðu. Grenndargralið dustar nú rykið af gömlum hugmyndum sínum um endurreisn gamalla og glæsilegra bygginga úr sögu Akureyrar – vitaskuld með hliðsjón af öllum nútímareglugerðum hvað varðar öryggi og þægindi. Er hægt að endurbyggja gamalt timburhús út frá bestu mögulegu heimildum sem við höfum í dag svo sem ljósmyndum og samtímalýsingum – og núna einnig teikningum? Óneitanlega yrði gaman að sitja í turnbyggingunni Hótel Oddeyri, með kaffibollann í annarri og dagblaðið í snjalltækinu í hinni?
Með því að smella hér má sjá ljósmynd sem Hallgrímur Einarsson tók af Hótel Oddeyri eftir breytingarnar 1905. Rétthafi myndarinnar er Minjasafnið á Akureyri.
Heimild: Grenndargralið
UMMÆLI