Ég settist niður með þá fyrirætlan að skrifa pistil um áramót. Þið vitið, svona pistil um nýtt upphaf, væntingar til nýs árs, að stíga á stokk og allt sem fylgir því að kveðja gamla árið og hefja það nýja. Ég komst að því eftir svolitla umhugsun að þetta plan væri ekki sérlega efnilegt. Líklega get ég alls ekki skrifað sannfærandi pistil um áramót eða þýðingu þeirra og ástæðurnar fyrir því fara hér á eftir.
Áramót hafa nefnilega með tímanum misst sjarmann í mínum augum, þau eiginlega hafa ekki mikið meira gildi fyrir mig en gott laugardagskvöld og trúið mér, laugardagskvöld í mínu lífi eru ótrúlega óspennandi. Ég fór þannig Bónus í dag og þótt ég hafi vissulega keypt snakkpoka og vogadýfu til að hafa með skaupinu, þá var það bara af gömlum vana og ég keypti hvorki hatta né glimmer. Ég kaupi ekki flugelda og hvorki eru bornar fram búblur eða hanastél í „partýinu“ hjá okkur. Reyndar á ég eina dvergvaxna freyðivínsflösku ef einhver skyldi hreyfa háværum mótmælum við þessari skömm en líklega fær flaskan að rykfalla í skápnum eitthvað áfram. Vert er að geta þess að ég var næstum því búin að tala hér um flögur en ekki snakk, en hef sem betur fer verið leiðrétt hvað það varðar því barnabörnunum finnst ótrúlega fyndið þegar amma talar um flögur.
Þegar ég var lítil voru áramótin spennandi og ég hlakkaði mikið til þeirra. Það var hvellhettulykt í loftinu á milli jóla og nýárs, allt öðruvísi stemmning en hátíðleiki jólanna og flugeldarnir höfðu ómótstæðilegt aðdráttarafl, jafnvel þótt að flugeldar þeirra ára væru eins og svo margt annað lágstemmdari upplifun en núna. Væntingarnar voru miklu minni og það þurfti minna til að vekja tilhlökkun. Pabbi eða afi negldu svokallaða „sól“ á skíðasleðann okkar, þar snerist hún á ofurhraða og lýsti upp myrkrið eins og fyrir töfra. Stjörnublys og handblys voru keypt handa okkur krökkunum og svo var spennan gífurleg þegar fullorðnir ofurhugar fjölskyldunnar kveiktu í einni eða tveimur litlum rakettum sem tóku glaðlegt flug þegar allt gekk vel. Útvarpið úr eldhúsinu var sett út á tröppur þannig að hlusta mætti á „Nú árið er liðið“ við flugeldaundirleik og svo fengu allir heitt súkkulaði í byrjun nýs árs. Við brugðum blysum á loft og bleika lýstum grund (með rauðu blysunum).
Seinna eða árið sem við urðum þrettán ára varð spennandi að fara á „Gaggaball“ á gamlárskvöld og það entist okkur í þrjú ár. Væntingar okkar voru líklega beintengdar hormónunum sem stjórnuðu lífinu á þeim aldri. Á Gaggaböllum voru jú sætir strákar, frítt spil að kyssa hvern sem er á miðnætti og svo allskonar sem ekki verður rætt hvorki hér né annarsstaðar. Þetta var á áttunda áratug síðustu aldar sumsé.
Þarna var samt hápunktinum náð. Eða að minnsta kosti man ég ekki eftir mikilli spennu fyrir áramótunum eftir 16 ára aldur. Ég varð ung móðir á mælikvarða nútímans og eftir það var ég annað hvort að vinna á gamlárskvöld, eða heima með minni litlu fjölskyldu. Að vísu er mér farið eins og öðrum gamlingjum að ég man betur það sem gerðist í fyrndinni og því ekki útilokað að ég hafi gleymt einhverju bitastæðu síðari ára, eða segi bara alls ekki frá því. Hvorki hér né annarsstaðar.
Nú snúast áramótin um að eiga notalegt kvöld með þeim sem mér þykir vænst um, horfa á skaupið og kúra með hundinum á meðan hann dauðhræddur þraukar sína árlegu skelfingu. Við höfum flúið með hann í sumarbústað eða sent hann með góðu fólki í sömu stöðu og við höfum meira að segja sofið af okkur áramótin, hjónin og hundurinn. Við höfum verið í útlöndum í sól og hita og þessi áramót ætlum við að fara út að borða. En ferfætlingurinn, okkar trúfasti og góði félagi á það svo sannarlega inni hjá okkur að við gerum allt til að létta honum lífið um áramót þannig að hann er settur í forgang.
Áramótin, eins og flest annað í lífinu, snúast nefnilega um væntingastjórnun. Hvers vænti ég af lífinu, hvers vænti ég af sjálfri mér, hvers vænti ég af gleðistundum? Lífið er fullt af tilviljunum og atburðarrás sem ég hvorki get séð fyrir eða haft nokkra stjórn á. Það er því ávísun á kvíða og vanlíðan að halda krampakennt í stjórntaumana. Stjórntauma sem felast t.d. í því að leggja ofuráherslu á að hlutir séu fyrirsjáanlegir og alltaf eins. Það getur falist í því að vilja alltaf hafa sama matinn, sömu hefðirnar og nota sömu uppskriftina af því hvað telst vera „gaman“. Það „eiga“ að vera rjúpur eins og hjá mömmu, það á að fá sér rauðvín með steikinni, það á að djamma á gamlárskvöld. En það eru bara ekki alltaf hægt að fara á flugeldasýningar og það veiðast ekki alltaf rjúpur. Sem er líka bara frábært því að þá fáum við tækifæri til að upplifa nýjar útgáfur af áramótum, nýjar bragðtegundir í lífið, nýjar hefðir í safnið sem fyrir er.
Það að hafa þjálfað upp sveigjanleika gagnvart tilveruni er líka hjálplegt þegar að því kemur að við erum tilneydd til að hugsa hlutina upp á nýtt, og að því kemur hjá okkur öllum.
Kannski er það bara þetta sem ég vil taka mér inn í nýtt ár og á móti hækkandi sól. Að halda áfram að æfa mig í sveigjanleika og læra þannig að tileinka mér nýjar og góðar venjur.
Gaggaböllin eru líka liðin undir lok og eins gott að finna eitthvað sem er að minnsta kosti jafn gott og þau.
Eigið góð áramót að eigin smekk gott fólk og megi nýja árið verða sólríkt og hlýtt.
UMMÆLI