Verkefnið „Halli hleypur apríl“ hefur gengið vonum framar og er nú innan við fjórðungur eftir. Aðalmarkmið verkefnisins er að safna áheitum og framlögum til að styrkja Þór/KA og Hamrana, knattspyrnulið kvenna á Akureyri. Verkefnið felst í því að Haraldur Ingólfsson ætlar að hlaupa 310 kílómetra í apríl, en sú vegalengd kemur til af því að stelpurnar í liðunum seldu 310 pör af sokkum í febrúar og mars.
„Aðalatriðið er að fá stuðningsfólk og velunnara, jafnt á Akureyri sem annars staðar, til að taka höndum saman og styrkja kvennaliðin í því erfiða ástandi sem nú ríkir og líkur eru á að muni vara um nokkra hríð. Hlaupin og athyglin á þann sem hleypur eru aukaatriði til að vekja athygli á liðunum og þörfinni fyrir öflugan stuðning og sterka bakhjarla á þessum tímum,“ segir Haraldur í fréttatilkynningu.
Einum og hálfum degi á undan áætlun
Hlaupaáætlunin gerði ráð fyrir 12 kílómetrum að meðaltali á dag í sex daga og síðan einn dag í frí. Haraldur hefur gert gott betur og er nú kominn nánast einn og hálfan dag fram úr áætlun. Hann á nú um 77 kílómetra eftir af þeim 310 sem markmiðið var að hlaupa, en þróunina í hlaupunum má sjá á meðfylgjandi mynd (tekin af dagbókarsíðu hlaupsins). Haraldur hefur tekið sér frí á þriðjudögum eftir að hafa hlaupið næstu sex daga á undan, þannig að hann hleypur ekki í dag. Eftir hlaupin í gær á hann innan við fjórðung vegalengdarinnar eftir.
Haraldur setur daglega inn myndir, myndbönd og upplýsingar á Facebook-síðu verkefnisins, „Hlauptu, Halli, hlauptu“, á dagbókarsíðuna haralduringolfsson.wordpress.com og á sína eigin Instagram-síðu, @halli_ingolfs.
„Ætlunin er að klára 310 kílómetrana í hádeginu fimmtudaginn 30. apríl. Mögulega verður eitthvað smá tilstand, en þó auðvitað innan marka og reglna samkomubannsins,“ segir Haraldur.
Margar leiðir til að styrkja
Mögulegt er að styrkja liðin í gegnum þetta verkefni með ýmsum hætti og má til dæmis sjá upplýsingar og reikningsnúmer á dagbókarsíðu hlaupsins – https://haralduringolfsson.wordpress.com/styrkja-verkefnid-halli-hleypur-april/.
Meðal annars er hægt að leggja beint inn á reikning hjá Haraldi, 0566-26-2777, kr. 2806632639, eða inn á reikning Styrktarfélags Þórs/KA, 0566-26-6004, kt. 6409091020. Einnig má skrá áheit á sérstakri síðu og fá reikning í heimabanka eða greiða með kreditkorti í gegnum sérstaka söfnunarsíðu, sportfunder.com/haralduringolfsson.
Unnið er að því að útbúa bol með áletruninni „Ég hleyp fyrir stelpur“ og „310 KM“ á bakinu. Tilvitnunin er innblásin af frétt á mbl.is þegar verkefnið hófst, en þá birtist frétt undir fyrirsögninni: „Hleypur fyrir stelpur á Akureyri“. Bolirnir verða seldir til styrktar verkefninu.
Mynd með frétt: Páll Jóhannesson
UMMÆLI