Enn fleiri kvarta undan bláum málningarögnum í blöndunartækjum – Vandinn mun stærri en virtist í fyrstuKaffid.is fékk aðsenda mynd af stíflaðri síu úr blöndunartæki sem er full af blárri málningu frá hitamælinum.

Enn fleiri kvarta undan bláum málningarögnum í blöndunartækjum – Vandinn mun stærri en virtist í fyrstu

Fyrir rúmri viku síðan vakti Kaffid.is, fyrst fjölmiðla, athygli á því að nýir sölumælar frá Norðurorku væru að stífla blöndunartæki og síur hjá fólki á Akureyri. Þessir nýju hitamælar, sem settir voru upp 2017 og 2018,  eru málaðir að innan með blárri málningu sem heita vatnið leysir upp hægt og rólega. Málningin sem leysist upp festist svo í kjölfarið í blöndunartækjum og síum og stíflar þau eða situr fast í lögnum fólks. Þeir sem eru með neysluvatnsvarmaskipta fá ekki málningu í lagnirnar en þess í stað festist málningin í varmaskiptum.

2000 mælar settir upp á Akureyri 

Norðurorka hefur nú gefið út yfirlýsingu vegna málsins þar sem þeir segja að enn fleiri ábendingar hafi borist þeim um bláar málningaragnir eða lit í síum blöndunartækja. Þá segir í yfirlýsingunni að vandinn virðist víðtækari en virtist í fyrstu en búið er að setja upp 2000 mæla af umræddi mælategund á þessum tveimur árum. Ekki er ljóst enn hvort að um gallaða framleiðslulotu sé að ræða eða hvort að mælarnir séu haldnir ágalla og þola ekki þær aðstæður sem þeir eru ætlaðir til. Starfsfólk Norðurorku hefur tekið niður mæla á nokkrum stöðum í kerfinu til rannsókna og unnið er með innflutningsaðila og framleiðanda mælanna í því skyni að skýra málið frekar. Framleiðandi hefur þegar fengið gallaðan mæli afhentan.

Halda áfram að taka niður mæla og rannsaka

Mælarnir, sem Norðurorka keypti eftir útboð, stóðust þær prófanir Norðurorku sem þeir þurfa alltaf að fara í gegnum áður en útboðið er samþykkt en eftir að þessar tilkynningar bárust var uppsetningu mælanna hætt strax.

,,Starfsfólk Norðurorku mun áfram taka niður mæla og rannsaka frá báðum árgöngum með mismunandi framleiðslunúmerum til að mögulegt sé að fá yfirsýn yfir útbreiðslu vandans og greina lotur. Búið er að gera ráðstafanir með að afla nýrra mæla og leggja drög að áætlun um útskipti komi til heildar útskipta umræddrar mælategundar. Frekari upplýsingar verða birtar þegar þær liggja fyrir. Eins og áður hefur komið fram harmar Norðurorka að málið hafi komið upp og mun áfram leggja sig fram um að lágmarka óþægindi viðskiptavina,“ segir í yfirlýsingunni sem birt var í gær á heimasíðu Norðurorku.

Viðskiptavinir eru beðnir um að hafa samband við Þjónustuver Norðurorku verði þeir fyrir óþægindum í kerfum sínum s.s. stíflum sem þeir telja stafa af málningarögnum í síum.

Tengdar fréttir: 

Bláar málningaragnir valda stíflum í heitavatnskerfum hjá viðskiptavinum Norðurorku

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó