Eins og Kaffið greindi frá í gær hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagt sig úr Framsóknarflokknum og hyggst stofna nýtt stjórnmálaafl. Tilkynning Sigmundar kom flokksmönnum í opna skjöldu en formaður Kjördæmissambands Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, Eygló Björg Jóhannsdóttir, segir engan í stjórninni hafa vitað af áformum hans eins og Rúv greinir frá í dag. Hún segir í samtali við Rúv að þau hafi ekki vitað af því að efsti maður á lista flokksins hafi ætlað að segja sig úr flokknum og þvertekur fyrir það að hafa unnið gegn Sigmundi, eins og hann ásakar flokksmenn um að hafa gert í tilkynningu sinni.
Innan við tveimur klukkustundum áður en kjördæmisþingið hófst í gær birti Sigmundur tilkynningu sína en hann tilkynnti engum innan stjórnar Kjördæmissambandsins um ákvörðun sína fyrir fram. Eygló segir í viðtali við Rúv að einhverjum á þinginu hafi verið brugðið vegna tilkynningarinnar frá Sigmundi en öðrum ekki.
Þórunn Egilsdóttir var áður búin að tilkynna framboð sitt í efsta sætið á móti Sigmundi Davíð og nú hefur Jóhannes G. Bjarnason einnig sagt að hann útiloki ekki framboð sjálfur í fyrstu sætin, þó skilgreinir hann ekki nákvæmlega hvort hann ætli eða í hvaða sæti. Þannig er það enn óljóst innan Framsóknarflokksins hver verður oddviti í Norðausturkjördæmi.
Sjá einnig:
Sigmundur Davíð hættir í Framsóknarflokknum og stofnar nýtt stjórnmálaafl
UMMÆLI