Ekkert verður af Fiskideginum á Dalvík í ár. Stjórn Fiskidagsins mikla hefur ákveðið að fresta tuttugu ára afmælshátíð um eitt ár í ljósi ástandsins sem hefur myndast vegna kórónaveirunnar.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur lagt til að fjöldasamkomur hér á landi verði takmarkaðar við tvö þúsund manns, í það minnsta út ágúst.
Tuttugu ára afmælishátíð Fiskidagsins mun því fara fram sjötta til áttunda ágúst 2021.
„Saman förum við í gegnum þetta verkefni sem okkur hefur verið rétt upp í hendurnar, verum áfram einbeitt og hlýðum þríeykinu sem vinnur ásamt sínu fólki afar gott starf. Við skulum muna að tapa aldrei gleðinni. Við komum sterk inn að ári og þá knúsumst við og njótum samvista við fólkið okkar og gesti,“ segir í tilkynningu frá stjórn Fiskidagsins mikla.