Tólf eru inniliggjandi á Sjúkrahúsinu á Akureyri með Covid-19 og þar af einn á gjörgæsludeild. Ekki kemur fram í tilkynningu sjúkrahússins hvort einstaklingarnir séu á sjúkrahúsinu vegna Covid-19.
Í tilkynningunni segir að á milli 60 og 70 starfsmenn séu fjarverandi vegna Covid-19 og að það sé ein aðaláskorunin á sjúkrahúsinu þesa dagana. Sjúkrahúsið er á hættustigi.
Minnt er á bakvarðalistann og þeir sem hafa möguleika á að skrá sig á listann eru eindregið hvattir til þess. Hægt er að skrá sig með því að senda póst á erlab@sak.is.
Frá miðnætti var öllum takmörkunum varðandi Covid-19 aflétt í samfélaginu. Í ljósi fjölda smita í samfélaginu og mönnunarvanda á sjúkrahúsinu er þó talið mikilvægt að halda áfram þeim smitvörnum sem í gangi eru á SAk. Engar breytingar eru því að svo stöddu til dæmis varðandi takmarkanir á heimsóknum, grímunotkun, notkun á hlífðarfatnaði eða þjónustu í mötuneyti. Þetta verður skoðað nánar eftir helgi.
Tilkynningu sjúkrahússins má lesa í heild með því að smella hér.