Endurskipulagning á rekstrarfyrirkomulagi Borgarbíós á Akureyri stendur nú yfir. Jóhann Norðfjörð, framkvæmdastjóri Borgarbíós, segir að það sé ekkert launungarmál að Covid-19 faraldurinn hafi ekki farið vel með bíóið.
„Ekki frekar en aðra rekstraraðila samkomuhúsa og auðvitað þjóðina alla. Niðurstöðu umræddrar endurskipulagningar má vænta á næstu vikum,“ segir Jóhann í svari við fyrirspurn Kaffið.is.
Borgarbíó, sem stendur í frægu húsnæði við Hólabraut 12 á Akureyri, er eitt fárra frumsýninga og fjölsalabíóa utan höfuðborgarinnar. Bíóið var stofnað fyrir miðja síðustu öld og er því eitt elsta kvikmyndahús á landinu.
„Á þessu stigi get ég ekki sagt fyrir um framhaldið að öðru leyti en því að það eru nokkrar frábærar myndir á leiðinni til frumsýningar hjá okkur og við höfum meðal annars staðfest frumsýningu á íslensku stórmyndinni Allra síðasta veiðiferðin sem frumsýnd verður hjá okkur í mars næstkomandi hér í Borgarbíói,“ segir Jóhann.
UMMÆLI