NTC

Endurnýjun umferðarljósa við Þingvallastræti og Skógarlund

Endurnýjun umferðarljósa við Þingvallastræti og Skógarlund

Nú er vinna hafin við að endurnýja umferðarljósin við gatnamót Þingvallastrætis og Skógarlunda á Akureyri. Þetta kemur fram á vef bæjarins.

Þar segir að skipt verði um öll ljós á gatnamótunum, bæði fyrir akandi og gangandi vegfarendur. Settar verða LED perur í ljósin og þá verður skipt um hnappa og stjórntölva endurnýjuð.

Meðan á vinnunni stendur getur slokknað á umferðarljósunum annað slagið en reynt verður eftir fremsta megni að hafa þau í gangi eins og hægt er. Skynjarar í götunni verða sömuleiðis yfirfarnir og þeim mögulega skipt út. Stefnt er að því að lagfæra ljósastýringu sem hefur ekki virkað sem skyldi á þessum gatnamótum.

„Markmiðið er að ljúka verkinu í þessari viku en það gæti þó ráðist af veðri. Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þessar framkvæmdir kunna að valda. Þær eru að sjálfsögðu liður í að bæta umferðaröryggi en undanfarið hefur verið lögð mikil áhersla á að endurnýja og nútímavæða umferðarljós í bænum,“ segir á vef bæjarins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó