Endurnýjun gangstétta og torgs í ListagilinuMyndir: Akureyri.is

Endurnýjun gangstétta og torgs í Listagilinu

Nú eru töluverðar framkvæmdir í gangi á gönguleiðum í Listagilinu á Akureyri. Endurgera á alla gangstéttina sunnan megin, frá gatnamótum Eyrarlandsvegar og niður að torginu fyrir framan hótel KEA og í leiðinni verður torgið sjálft endurbætt. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

Í tilkynningunni segir:

Skipt verður um allar hellur og horft til þess að gera gönguleið yfir torgið skýrari og aðgengilegri. Auk þess verða eyjur hellulagðar ofan á torgið til að gera akstursleið skýrari og draga úr umferðarhraða.

Gangstéttin sunnan megin verður breikkuð og hún færð í sama stíl og er norðan megin. Um leið verður lagður háspennustrengur. Gatan verður þrengd sem nemur stækkun á gangstétt og á það, ásamt endurgerð á torginu, að draga úr umferðarhraða og auka vægi gangandi vegfarenda á svæðinu.

Gangstéttin norðan megin verður svo einnig endurgerð frá Rub23 og niður að horninu hjá Eymundsson.

Íbúar og stjórnendur fyrirtækja í Kaupvangsstræti hafa verið látnir vita af þessum framkvæmdum og var húseigendum í fyrra gefinn kostur á að hafa samband ef þeir vildu nýta tækifærið, til dæmis með því að setja snjóbræðslu fyrir framan sínar eignir samhliða framkvæmdunum.

Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum í byrjun júní. Umferð gæti orðið fyrir áhrifum, en verkið verður þó unnið í áföngum til að raska umferð sem minnst. Loka gæti þurft götunni að hluta eða í heild tímabundið og verður nánar upplýst um það eftir atvikum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó