„Endalaus skemmtun“ á Einni með öllu um Verslunarmannahelgina

„Endalaus skemmtun“ á Einni með öllu um Verslunarmannahelgina

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu verður haldin um Verslunarmannahelgina dagana 1.ágúst til 4.ágúst. Bærinn iðar af lífi og fjöri yfir hátíðina þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þar verða fjölskyldu-, barna-, og kvöldskemmtanir um allan bæ, landsþekktir listamenn stíga á stokk, tvö tívolí mæta í bæinn og verða staðsett á samkomuhúsflötinni, skógardagur í Kjarnaskógi, sparitónleikarnir og aðrir viðburðir munu sjá til þess að halda lífi og fjöri í bænum. Hina magnaða Kata Vignis verður kynnir hátíðarinnar, hún mun sjá til þess að gera hátíðina ógleymanlega með okkur. 
Sparitónleikarnir eru stærstu tónleikar helgarinnar en við höfum fengið með okkur landsþekkt tónlistarfólk á borð við Herra Hnetusmjör, Pál Óskar, Prettyboitjokko, Stjórnina og Kristmund Axel. Þá höfum við einnig fengið með okkur í lið frábært tónlistarfólk frá Norðurlandinu líkt og Saint Pete, Drottningar, Brenndu Bananarnir og Birna Karen sem koma fram á sunnudagskvöldinu. Við lofum alvöru stemningu á flötinni svo láttu þig ekki vanta á sunnudagskvöldið 4.ágúst. 

 
„Tónlistarlífið“ 
Mikið er um tónlist yfir hátíðina en á Græna Hattinum er dagskráin ekki að verri endanum þar sem Magni, Matti Papi og Stjórnin stíga á svið og halda næturlífinu gangandi alla helgina. Í Akureyrarkirkju verður boðið upp á Óskalagatónleika með þeim Óskari Péturssyni, Eyþóri Inga Jónssyni og Ívari Helgasyni þar sem þeir syngja og spila óskalög tónleikagesta. Tónleikarnir hafa fengið frábærar undirtektir frá bæjarbúum þar sem gestir fá lagalista með nokkuð hundruð lögum og biðja svo um óskalög. 
Í Sjallanum verður nóg um að vera en á laugardagskvöldinu verður blásið upp alvöru veislu með Bríeti, Birni og Aron Can og svo klára Herra Hnetusmjör, Prettyboitjokko, Kristmundur Axel og Saint Pete hátíðina á sunnudagskvöldinu.  

Föstudag og laugardag verður viðburðurinn “Akureyri er okkar” verður haldin á ný en þá taka veitingamenn bæjarins sig saman og halda pop up tónleika á hverju veitingahúsi fyrir sig, fólk röltir á milli veitingahúsa og horfir á frábæra listamenn flytja sína tónlist. Bærinn mun allur iða af tónlist. 
Á Vamos verða útitónleikar, Latino Partý með Salsa North, DJ Orangel og OurPsych á föstudagskvöldinu og stórtónleikar með Aron Can, Birni, Bríeti og norðlensku hljómsveitinni 7.9.13 á laugardagskvöldinu. 

„Nóg af hreyfingu og fjöri“ 
Það verður nóg í boði fyrir hlaupagarpa bæjarins en hlaupamótið Súlur Vertical verður með fjórar vegalengdir í boði, 19km, 29km, 48km og 100km utanvegahlaup. Hlaupið er alveg upp á Súlur og endað í miðbæ Akureyrar. Krakkahlaup Súlur Vertical er svo haldið í Kjarnaskógi á föstudeginum.  
Í Kjarnaskógi verður strandhandboltamót handknattleiksdeildar KA/Þórs alla helgina þar sem bæði fullorðinsmót og krakkamót verða í boði.
Húlludúlluna má ekki vanta um Verslunarmannahelgina en hún verður á tveimur stöðum um helgina, á útisvæði Sykurverks í miðbænum og í Kjarnaskógi á skógardeginum. Allir krakkar velkomnir að húlla og hreyfa sig saman! 
Á Ráðhústorginu verður slegið upp DJ krakka veislu með Kötu Vignis þar sem hún mun stýra danshreyfingum við skemmtilega tónlist og meðlimir Hvolpasveitarinnar taka þátt!
Norður verður með fjölskylduwod Crossfit um helgina þar sem þau hvetja alla til að mæta og hreyfa sig saman og börn geta hoppað í hoppuköstulum á meðan.
 

„Menning, list og hönnun“ 

Það verður einnig nóg í boði fyrir listunnendur og aðra áhugamenn um hönnun en á Ráðhústorginu verður markaðsstemning á föstudag, laugardag og sunnudag þar sem handverk, listmunir, nýjar og gamlar vörur, skór, fatnaður og margt annað verður til sölu. Einnig verða götubitar landsins mættir að leyfa fólki að njóta sinna bita. 
Á Ráðhústorgi verða Mömmur og möffins með notalega stemningu þar sem möffins verður til sölu og öll innkoma viðburðarins rennur líkt og áður til Fæðingardeildar Sjúkrahúss  Akureyrar. Mömmur og möffins hefur fengið frábærar móttökur síðustu ár þar sem áhugabakarar geta tekið þátt í söfnuninni og skemmtuninni. Klói kókómjólk mætir á svæðið og gefur öllum börnum glaðning í boði MS.
Á Vamos verður slegið upp alvöru útigrilli á föstudag og laugardag þar sem verður heilgrillaður skrokkur fyrir gesti og gangandi með þeim Ivan Vujcic og Goran.
Söfnin í bænum verða að sjálfsögðu opin um helgina svo nóg verður um menningu og list. Mótorhjólasafnið, Listasafnið á Akureyri, Flugsafnið, Leikfangasýning í Friðbjarnarhúsi, Safnasafnið og Iðnaðarsafnið taka vel á móti gestum og gangandi. 
Húlladúllan stígur á svið á tveimur stöðum um helgina, í miðbænum á laugardaginn og í Kjarnaskógi á sunnudaginn. 
 
„Endalaus skemmtun“ 
Alvöru hátíð má að sjálfsögðu ekki vanta tívolí en Sprell Tívolí og Taylor’s Tivoli hafa boðað komu sína til bæjarins yfir helgina þar sem m.a. fallturn, hringekja, hoppukastalaland og margt fleira verður í boði á samkomuhúsflötinni frá fimmtudegi til sunnudags.  
Skógardagur Skógræktafélags Eyfirðinga verður haldinn á sunnudaginn en í Kjarnaskógi verður ýmislegt í boði fyrir gesti og gangandi og þessi viðburður fer stækkandi með hverju árinu, enda fátt betra en að spóka sig um í einum fallegasta skógi landsins.  
Á sunnudagskvöldið er svo komið að sparitónleikunum sem haldnir verða á flötinni fyrir neðan samkomuhúsið þar sem samansafn af glæsilegu tónlistarfólki skemmtir bæjarbúum og öðrum gestum. Herra Hnetusmjör, Prettyboitjokko, Páll Óskar, Stjórnin, Kristmundur Axel, Drottningar, Saint Pete og Brenndu Bananarnir munu sjá til þess að skemmta okkur fram á miðnætti. Tilvalið að taka með sér fjölskyldu og vini og syngja hástöfum, fylgjast með flugeldasýningunni og smábátum bæjarins sigla á pollinum.

Special Tours mun þá leiða hópsiglingu á sunnudagskvöldinu og kveikja á rauðum blysum frá Grúmmíbátaþjónustunni sem munu lýsa upp fjörðinn. Kjörin ferð fyrir alla minni sem og stærri hópa þar sem skemmtun er í fyrirrúmi með einstöku útsýni á sunnudagskvöldinu.

Eftir tónleikana opna svo skemmtistaðir bæjarins og halda stuðina áfram langt fram á nótt. 
 
Íbúar bæjarins eru hvattir til að skreyta hús, götur og verslanir með rauðu yfir hátíðina og við bendum á að hægt er að kaupa glæsilegt rautt skraut í Partýlandi!

Hátíðin er enn í stöðugri mótun svo við hvetjum fólk eindregið til þess að kynna sér allt sem er í boði og kíkja reglulega á dagskránna inni á www.einmedollu.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó