Tónlistarmaðurinn Emmsjé Gauti mun halda upp á 20 ára afmæli sitt sem listamaður á árinu. Hann mun halda hátíðartónleika á Græna Hattinum 27. maí næstkomandi til að fagna áfanganum.
„Það eru 20 ár síðan ég rappaði rapp á sviði í fyrsta skipti. Síðan þá hefur tónlistarstefnan átt mig allan. Ég ætla að halda upp á það á Græna hattinum 27.maí þar sem ég flakka milli tímabila á ferlinum, tek lög sem mér þykir vænt um en fæ sjaldan tækifæri á að spila í bland við hittara sem flestir ættu að kannast við,“ segir Emmsjé Gauti í spjalli við Kaffið.is.
Emmsjé Gauti segist ekki geta beðið eftir því að koma norður og fagna með Akureyringum. Hann hefur spilað reglulega á Græna Hattinum á sínum 20 árum í tónlistarbransanum og segir stemninguna á staðnum vera sérstaka.
„Stemningin er alltaf gífurleg fyrir tónleikum á Græna Hattinum. Það er eitthvað sérstakt við Græna Hattinn og kvöldin sem við spilum þar eru alltaf sturluð,” segir Emmsjé.
Á sviðinu með honum þann 27. maí næstkomandi verða Björn Valur Pálsson (DJ) og Benjamín Bent (trommur). Miðasala fer fram á tix.is.
UMMÆLI