Elsta hús Oddeyrar orðið svartStrandgata 49 er nú svört að lit líkt og Laxdalshús.

Elsta hús Oddeyrar orðið svart

Standgata 49, þar sem veitingahúsið Bryggjan er til húsa, hefur nú fengið alsherjar andlitslyftingu en húsið var nýlega málað og ásýnd þess nú orðin allt önnur. Eigendur Bryggjunnar, þau Heba Finnsdóttir og Róbert Hasler, tóku þá ákvörðun að mála allt húsið svart en halda gluggum hvítum og hurðum rauðum.
,,Við hugsuðum þetta lengi og vildum setja húsið í gamlan, flottan búning að fyrirmynd Laxdalshússins og Gamla Lunds, enda glæsileg hús. Og nú er Bryggjan orðin það líka!“ segja eigendur Bryggjunnar í samtali við Kaffið.

Hefur staðið í 145 ár á Oddeyri
Strandgata 49 er rótgróinn hluti af sögu Akureyrarbæjar, þar sem það hefur staðið í ein 145 ár og er það jafnframt elsta hús sem stendur á Oddeyri. Húsið hefur í áranna rás verið kallað Gránufélagshúsin þar sem í rauninni eru þetta þrjú sambyggð timburhús sem voru reist í áföngum á árunum 1873-1885. Vestasta húsið er elst og var flutt frá Seyðisfirði árið 1873. Talið er að það hafi verið byggt þar upp úr 1850. Þess má þó geta að Gamli Lundur er í raun elsta hús Oddeyrar þar sem það var reist 1858 en hins vegar var það rifið til grunna 1980 og nákvæm eftirlíking byggð í staðinn og því með réttu ekki hægt að kalla það elsta hús Oddeyrar.

Akureyringar kenna húsið við Vélsmiðjuna 
Strandgata 49 var lengst af iðnaðar- og verslunarhúsnæði, allt frá því að forvígismenn Gránufélagsins, Tryggvi Gunnarsson og sr. Arnljótur Ólafsson keyptu það. Gránufélagið var afar umsvifamikið í áratugi en halla tók undan fæti upp úr aldamótunum 1900 og komst það þá í eigu Hinna sameinuðu íslensku verslana, sem héldu skrifstofur sínar í þessu húsi allt til ársins 1926. Þá tók við vélsmiðjan Oddi en hún var starfrækt þar alveg til ársins 1992 en þá var húsið orðið gjörbreytt að innan.

Um haustið 1993 var lokið við endurgerð á húsinu og þar opnaði veitingastaðurinn Við Pollinn sem dró nafn sitt af staðsetningu hússins. Tíu árum síðar lauk starfsemi veitingastaðarins og skemmtistaðurinn Vélsmiðjan opnaði þar. Húsið hefur því oftast verið kennt við Vélsmiðjuna, hvort sem fólk á við hina upprunalegu vélsmiðju eða skemmtistaðinn. Nú síðastliðin ár hefur húsið þó verið kennt við Bryggjuna, sem hefur verið með veitingastað í húsinu frá árinu 2013.

Svona var Bryggjan, Strandgata 49, á litinn áður.

Svona lítur Bryggjan út núna eftir að hún var máluð.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó