Elsku kerlingin….

Elsku kerlingin….

Það er svo merkilegt að ég skuli oft vera sjálfri mér verst þegar ég þarf mest á góðmennsku að halda.

Ég er að tala um dagana þegar orkubirgðirnar bæði þær líkamlegu og andlegu eru í lágmarki og verkirnir mínir jafnvel í hámarki. Þessa daga þegar líkaminn hrópar á hvíld og svefn en ekki verkefni og framkvæmdir. Þessa daga þegar ég finn hressilega fyrir því að vera  komin af léttasta skeiði með fulla bakpoka af allskonar -álagi, vanheilsu, kvíða og sorgum. Og hvað gerist? Jú ég stilli mér upp við vegg og gef mér fullt skotveiðileyfi á sjálfa mig. Og svo upphefst skothríðin.  Ég hef áreiðanlega einhvernvegin komið mér í þessa aðstöðu sjálf með því að:

  • Borða einhverja vitleysu
  • Hreyfa mig of lítið
  • Hreyfa mig of mikið
  • Láta mér verða of kalt
  • Vera of stressuð
  • Vera veiklunduð
  • Vera löt, ímyndunarveik, lélegur pappír……

……og þannig get ég lengi haldið áfram. Ímyndunarafli mínu virðast engin takmörk sett þegar málið snýst um að berja á sjálfri mér. Með yfirveguðum og úthugsuðum höggum sem flest eru undir beltisstað. Aldrei í lífinu myndi ég láta mér detta í hug að kenna öðrum um eigin líðan á þennan hátt, aldrei myndi ég sýna öðru fólk hvílíkan skort á skilningi, samhyggð og kærleika. Og sannarlega veit ég að ég deili þessu með ótal mörgum öðrum, ekki hvað síst kynsystrum mínum.

Gallinn er líka sá að þessi djúpstæða dómharka virkar ekki rass í bala. Maður lemur ekki vanheilsu eða vanlíðan hvorki úr sér sjálfum né öðrum,- það er einfaldlega vond hugmynd.  Í dag vitum við að verkir eru ekki bara skynjun sársauka af líkamlegum orsökum. Verkir eru í raun sálfræðilegt og huglægt fyrirbæri þar sem lífeðlisfræðilegur flutningur taugaboða fléttast saman við tilfinningalega og sálræna þætti. Þeir eru því ekki lengur bara líkamlegir heldur líka sálrænir.

Og við, í endalausri hræðslu við það að vera talin, ímyndunarveik, móðursjúk eða í andlegu ójafnvægi bætum þessum nýju vísindum ofan á gamla uppeldið sem snýst um að vera sterk, dugleg, hörð af okkur og láta aldrei deigan síga.  Úr þessari súpu trúi ég að dómhörkusjálfið eflist gífurlega. Við viljum ekki láta undan verkjum eða þreytu nema fyrir liggi sjáanlegar og mælanlegar orsakir, -orsakir sem hafa í för með sér viðurkenningu lækna og meðferð sem virkar. Annað er óásættanlegt.

Þetta er í raun grátbroslegt þar sem einmitt þessi vitneskja um að verkir séu bæði af líkamlegum og sálrænum toga spunnir ættu einmitt að segja okkur það að hver sem orsökin er þá breytir það ekki upplifun okkar af þeim. Við höfum þá verki sem við upplifum og við þurfum að sýna okkar sálfrænu upplifunum sömu mildi og skilning og þeim líkamlegu. Og hvað er líkaminn að segja okkur þegar við finnum til þreytu? Að við séum löt? Nei sjaldnast. Að við séum þreytt? Já yfirleitt er það orsökin og það breytir litlu þótt við reynum að telja okkur trú um að við eigum ekki að vera þreytt.

Í þeirri samfélagslegu innrætingu að það sé manndómsmerki að bíta á jaxlinn, varð það augljóslega útundan að kenna okkur að þykja vænt um okkur sjálf og sýna okkur góðmennsku og mildi. Það gleymdist alveg að kenna okkur mikilvægi þess að klappa okkur sjálfum á öxlina, að hvetja okkur sjálf og hugsa til okkar af ástúð. Því var ruglað saman við sjálfselsku (sem var bannað) og við gátum jafnvel haldið að við værum „eitthvað“ sem var (og er kannski enn) líka bannað.

En viti menn, ég er eitthvað! Þótt ég gleymi mér alltof oft og detti í gömlu dómaragryfjuna gagnvart eigin vanmætti, þá veit ég samt núna að ég er eitthvað! Ég er 58 ára gömul, hef farið í gegnum allskonar bras og brölt, með sjálfsónæmissjúkdóm, með athyglisbrest og kvíðatilhneigingu en ég er virkilega stolt af þessari konu og mér þykir óumræðilega vænt um hana. Ég óska henni þess að hún hvíli sig oftar og sýni sér oftar mildi og blíðu, ég óska henni þess að vera stolt af sjálfri sér. Bæði líkami og sál er svo sem margstagað og bætt en ég vil bera örin mín með reisn og ég vil vera stolt af þessari konu sem hefur upplifað allskonar í lífinu. Ég ætla vera meðvituð í því að þjálfa upp ástúð og skilning í eigin garð og sættast við ákvarðanir mínar.

Ég veit hversu erfitt það er að byrja á því að horfa í spegilinn og ná sátt við eigin spegilmynd og hversu erfitt það er að fyrirgefa sér það að vera ekki fullkomin. Að geta ekki allt og gera ekki allt en elska sig þrátt fyrir það. En eins og flest annað þá kemur það með æfingunni. Og er sannarlega ekki minna mikilvægt en að hreyfa sig og borða hollan mat og annað sem okkur finnst sjálfsagt. Það að vera manneskja þýðir að við erum flókið samspil af upplifunum, innrætingu, erfðum, taugaboðum, efnaboðum og svo ótal mörgu öðru. Við erum öll einstök og dagarnir okkar eru allskonar. Við erum öll ófullkomin. Sýnum því virðingu og sýnum okkur sjálfum skilning og svolítið af kærleika,- við megum alveg við því.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó