NTC

Ellefu glæný tónverk eftir börn og ungmenni frumflutt í Hofi

Ellefu glæný tónverk eftir börn og ungmenni frumflutt í Hofi

Afar velheppnaðir tónleikar Upptaktsins á Norðurlandi eystra, tónsköpunarverðlauna barna og ungmenna, fóru fram á sunnudaginn, í Menningarhúsinu Hofi.

Þar fluttu atvinnuhljóðfæraleikarar ellefu glæný tónverk eftir ungmenni á aldrinum 10-16 ára. Á tónleikunum fengu tónlistarstefnur að njóta sín, og áheyrendur fengu að heyra allt frá reggí yfir í háklassískan menúett. Þar má nefna rokk, popp, jazz, tölvuleikjatónlist og tónlist sem myndi sóma sér vel í hvaða kvikmynd sem er.

Það voru hátt í 100 manns sem fögnuðu ungu tónskáldunum tíu með glimrandi lófataki í lok tónleikanna.

„Meðan bylur réði ríkjum utanhúss bræddi sköpunargleðin og hlýjan í verkum ungmennannna tíu hjörtu þeirra sem á hlýddu og víða sá ég tár glitra á hvarmi,“ segir Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarhússins Hofs og verkefnisstýra Upptaktsins. „Við erum ríkt samfélag að eiga svo hæfileikarík og skapandi ungmenni í tónlist! Ég er líka afar stolt af því að Menningarfélag Akureyrar hafi skapað vettvang til að ýta undir sköpunarkraft ungmenna sem hafa áhuga á tónlist og ég bið þau einlæglega að halda áfram að semja og hvet þau sem langar til að prófa að semja verk að kýla á það. Allt getur gerst. Ég hlakka mikið til að sjá nýjar hugmyndir kvikna og streyma inn að ári í Upptaktinn 2025!“ segir Kristín Sóley jafnframt.

Útsetning verkanna var í höndum Kristjáns Edelsteins og Gretu Salóme, sem einnig var tónlistarstjóri Upptaktsins.

Ungtónskáldin og verk þeirra :

Anna Lovísa ArnarsdóttirEyrun mín sjá liti
Eiður Reykjalín HjelmFrühlig im Wald (vor í skóginum).
Hákon Geir SnorrasonSvigrúm
Heimir Bjarni SteinþórssonMetal Dandelion
Jóhann Valur BjörnssonUnfathomable
Jóhann Valur BjörnssonBlossom
Jóhanna Kristín JúliusdóttirFjölskyldur
Svanborg Alma ÍvarsdóttirDraumur túnfisksins
Þórhallur DarriShow me your heart
Þórhildur Eva HelgadóttirFroskadansinn
Tobías Þórarinn MatharelTrompetlag

Tónleikarnir voru teknir upp bæði í hljóð og mynd til skrásetningar og fyrir ungmennin til eignar.

Lög þeirra munu birtast á vef RÚV innan skamms og verða í kjölfarið einnig aðgengileg á Youtuberás Upptaktsins á Norðurlandi eystra.

Sambíó

UMMÆLI