NTC

Elín Inga – Fékk að láni dómgreind þar sem hennar eigin hefur ítrekað svikið

Elín Inga – Fékk að láni dómgreind þar sem hennar eigin hefur ítrekað svikið

Elín Inga Bragadóttir, Akureyringur, hefur talað afar opinskátt um baráttu sína við alkahólisma á Facebook síðu sinni og dvöl sína á meðferðarheimilinu Vogi. Við fengum góðfúslegt leyfi frá henni til að birta pistil sem hún skrifaði um helgina, við gefum Elínu orðið.

Elín Inga Bragadóttir

Elín Inga Bragadóttir skrifar

Jih, elsku fólk. Takk fyrir allan stuðninginn síðustu daga. U be amazin’! 

Á föstudegi fyrir rúmum hálfum mánuði fór ég í saklaust happy hour, að ég hélt, með góðri vinkonu og ætlaði í jóga að morgni næsta dags. Þegar ég vaknaði á laugardagsmorgninum var jógatíminn um það bil að hefjast og í stað þess að vera þar að næra andann var ég heima með rauðvínshausverk í andlegu gjaldþroti. Það gerðist eitthvað innra með mér þennan morgun og ég upplifði í fyrsta sinn raunverulega uppgjöf gagnvart stjórnleysinu mínu. Alkóhólismanum mínum, sjúkdómi sem ég átti samt enn eftir að sannfærast fullkomlega um að ég væri haldin. Sumir alkóhólistar kalla þetta móment andlega vakningu. Hvað sem við köllum það þá upplifði ég meiri létti en ég man og vissi að ég yrði að gera drastískar breytingar á lífinu mínu.

Ég grét sirka allan daginn og litlu minna á sunnudeginum í meira tilfinningatsunamiástandi en nokkru sinni áður. Vanlíðan, léttir, þakklæti, ást, von, sektarkennd, samviskubit, sjálfshatur — allt í hrærigraut í rauðvínsmarineruðu höfðinu. Á mánudegi klukkan átta hringdi ég í Vog og var mætt þar í ráðgjafaviðtal klukkan níu. Fjórum dögum síðar var ég komin í meðferð á Vogi þar sem ég dvaldi í níu daga.

Mér hefur líklega aldrei á ævinni liðið eins undarlega og finnst ég pínulítið búin að missa raunveruleikatengingu við lífið mitt eftir níu súrrealíska daga á Vogi. Að ég stæði í pontu á AA-fundi og lýsti því yfir að ég væri alkóhólisti þótti mér absúrd fyrir ekki svo löngu. Afneitun, heitir það víst, stundum kallað þjóðaríþrótt alkóhólista. Ég í alvörunni taldi mig hafa valið um að vera bóhem, drekka rauðvín og bjór og fokka upp þegar mér sýndist. Svo þegar það endaði illa (sem var oft) þá trúði ég því, líka í fullri alvöru, að þetta yrði allt öðruvísi næst. Meira að segja þegar ég var búin að detta niður stiga á skemmtistað og brjóta á mér öxlina, þá leið ekki á löngu þar til ég stóð í þeirri vissu að ég yrði með þetta algjörlega under control í næsta skipti.

Herbergisfélagi minn á Vogi talaði um sjúkdóminn sem andfélagslegan hýsil í höfðinu á sér eitthvert skiptið sem við lágum uppí rúmi að spjalla. Ég hef oft hugsað um átröskunina og kvíðann minn þannig, sem óvelkominn hýsil í höfðinu á mér sem er snillingur í að sópa skynseminni í burtu, sérstaklega ef ég er í tilfinningalegu ójafnvægi eða undir álagi. Inná Vogi áttaði ég mig í fyrsta sinn á því að nákvæmlega það sama á við um alkóhólismann, ég þarf að læra að umgangast þennan sjúkdóm eins og hina, læra að þekkja hættumerki, bera virðingu fyrir alvarleika hans og hlúa markvisst að batanum mínum.

Ég lærði heilan helling af öðrum vistmönnum Vogs og eitt af því var að alkóhólistar eru snillingar í að vita betur en allir aðrir hvað er þeim fyrir bestu. Ég upplifði mig til að mynda bara „good to go“ eftir tvo daga á Vogi, alveg búin að „fatta þetta sjitt sko“. Sem betur fer talaði ég við samsjúkling sem bað mig um að tala við ráðgjafa, þetta væri stórhættuleg líðan. Ég skil núna að sjúkdómurinn er krónískur og fer hvergi og þess vegna þarf ég, hvort sem mér líkar betur eða verr, að vera meðvituð um hann og bera virðingu fyrir því að það er vinna að vera alkóhólisti. Það tók mig smástund að sætta mig við það (hætta að vera brjáluð yfir því) en ég er búin að ná einhverskonar sátt við sjúkdómsgreininguna og ætla að njóta sjálfsvinnunnar sem er nauðsynlegt alkóhólistum að ástunda. Ég mun að öllum líkindum læra hluti um sjálfa mig sem ég hafði ekki hugmynd um áður. Það er alveg frekar magnað.

Ráðgjafi, sálfræðingur og læknir mældu með áframhaldandi meðferð fyrir mig, til að læra almennilega að verða „edrú kona“. Ég var ofc með betra plan en þau öll en ákvað að leggja það til hliðar og taka leiðsögninni, fá að láni dómgreind þar sem mín eigin hefur ítrekað svikið mig á þessu sviði. Meðferðin kemur til með að taka mánuð og ég verð ekkert í sambandi í síma eða á samfélagsmiðlum fyrr en bara að nálgast jól. Mig langaði að þið vissuð af því. Ágætis hliðarþerapía kannski að stúta samfélagsmiðlafíkninni.

Ég sé ekki fram á að ná að hringja í alla sem mig langar að tala við í þessu stutta „bæjarleyfi“, hvað þá að drekka kaffi með öllum sem mig langar að drekka kaffi með. Ég hlakka hins vegar þeim mun meira til þess að spjalla undir jólaljósum með kakóbolla þegar ég verð orðin temmilega stabíl tilfinningalega. Og umfram allt, orðin ágæt í að vera edrú.

Mér þykir vænt um ykkur öll, nána vini, fjölskyldu og kunningja. Ég skalf af geðshræringu í spennufalli yfir jákvæðum viðbrögðum ykkar og góðvild gagnvart veikindum mínum. Munið að vera líka svona góð og jákvæð gagnvart ykkur sjálfum og hlúa að ykkur í þessu skammdegi sem framundan er. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó