Eldvarnaátak LSS hafið með heimsókn í SíðuskólaEkki þótti börnunum leiðinlegt að sjá slökkviliðsbílinn mæta í Síðuskóla í morgun. Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson

Eldvarnaátak LSS hafið með heimsókn í Síðuskóla

Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hófst í dag með heimsókn Slökkviliðs Akureyrar í Síðuskóla í morgun. Var þar rætt við nemendur í 3. bekk, líkt og gert er á hverju ári, um mikilvægi eldvarna. Þar að auki fór fram meiriháttar rýmingar- og björgunaræfing og starfsfólk og aðrir gestir fengu þjálfun í notkun slökkvibúnaðar. Slökkviliðsmenn um allt land munu í kjölfarið taka þátt í átakinu, meðal annars með því að heimsækja fleiri grunnskóla.

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, var heiðursgestur á viðburðinum og ræddi fyrst við krakkana. Ítrekaði hún mikilvægi eldvarna og sagði nemendunum frá eigin reynslu í þeim efnum.

Nemendur í 3. bekk fengu síðan að horfa á stuttu teiknimyndina „Brennu-Vargur,“ sem fjallar um slökkviálfana Loga og Glóð og ævintýri þeirra. Teiknimyndin, líkt og eldvarnaátak LSS, leggur áherslu á forvarnir gegn eldsvoðum á hátt sem er auðveldlega skiljanlegt fyrir yngri kynslóðina. Lesendur geta sjálfir fundið myndbandið og jafnvel spilað það fyrir eigin börn með því að smella hér.

Jafnt ungir sem aldnir sátu spekingslegir og hlustuðu á hollráð Loga og Glóðar.
Nemendurnir fengu að spyrja Bjarna Ingimarsson, formann LSS, spurninga sem hann svaraði með glöðu geði

Eftir að Bjarni hafði svarað spurningum krakkanna var komið að rýmingar- og björgunaræfingu. Hér var þó ekki um hefðbundna brunaæfingu að ræða. Slökkvilið Akureyrar notaðist við sérstakan búnað sem hermir eftir eldi á mjög sannfærandi hátt. Í raun hefði gestur sem ekki vissi hvað um væri að vera haft litla ástæðu til þess að halda að ekki væri um raunverulegan, ef smávægilegan, eld að ræða. Bjallan ómaði og nemendurnir röðuðu sér skipulega upp utan við skólann til talningar á meðan slökkviliðsmenn með reykköfunargrímur gerðu sig tilbúna til þess að fara inn og slökkva eldinn á B gangi þar sem reykurinn steig út um hurðina. Það sem eflaust helst benti til þess að um enga raunverulega hættu var að ræða voru bros og hlátur nemenda og starfsfólks.

Þó að það sé vissulega fagnaðarefni að börn fái kennslu um eldvarnir, bæði neyðarviðbrögð og forvarnir, þá er ábyrgðin að sjálfsögðu meiri á fullorðna fólkinu. Því vísum við hjá Kaffinu í tilkynningu frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna um helstu áhersluatriðin hað varðar forvarnir gegn eldsvoða og hvetjum lesendur til þess að ganga úr skugga um að þessi atriði séu í lagi á þeirra eigin heimilum:

 Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum.
 Slökkvitæki á að vera við helstu flóttaleið.
 Eldvarnateppi á að vera á sýnilegum stað í eldhúsi.
 Tryggja þarf öllum á hverju heimili að minnsta kosti tvær flóttaleiðir.
 Allir eiga að þekkja neyðarnúmerið, 112, líka börnin.
 Varlega skal fara með kertaljós og annan opinn eld og gæta skal þess að hlaða snjalltæki og rafhlaupahjól aðeins í öruggu umhverfi.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó