Slökkviliðið á Akureyri var kallað út í dag þegar eldur kom upp í álþynnuverksmiðjunni TDK Foil að Krossanesi 4 á Akureyri. Alls komu 30 manns að slökkvistörfum en allir á frívakt voru kallaðir út. Frá þessu er greint á mbl.is í dag.
Alls tóku slökkvistörf um 40 mínútur, en að sögn Gunnars Rúnars Ólafssonar, sitjandi slökkviliðsstjóra, fór betur en á horfðist.
Eldur kviknaði í framleiðsluvél sem var alelda þegar slökkviliðsmenn mættu á svæðið. Nákvæm eldsupptök eru enn óþekkt. Ekki má sprauta vatni á álþinnur, líkt og þær sem vélin framleiðir, og voru slökkvistörf því snúnari en ella.
Sjúkrabílar voru kallaðir út til að hlúa að fólki sem var við vinnu þegar eldurinn kviknaði, bæði vegna áfalls og reykeitrunar. Ekki þurfti að flytja neinn á sjúkrahús.
UMMÆLI