Ekki viss um að Ítalía vinni

Ekki viss um að Ítalía vinni

Kristján Eldjárn skrifar

Það hefur ekki farið framhjá mörgum að lokakeppni Eurovision fer fram í Kænugarði í kvöld. Við á Kaffinu vildum fá sérfræðiálit á keppninni í ár og heyrðum því hljóðið í einum af helstu Eurovision sérfræðingum landsins, Kristjáni Eldjárn Sveinssyni:

Í kvöld er skemmtilegasti sjónvarpsviðburður ársins og sennilega skemmtilegustu partýin líka. Það hafa flestir gaman af Eurovision, þó svo að einhverjir viðurkenni það nú ekki. Ég er einn þeirra sem lifi fyrir Eurovision og byrja að gíra mig upp í janúar-febrúar á hverju ári.

Keppnin í ár býður upp á fjölmörg góð lög og þó að elsku Svala okkar hafi ekki farið áfram verður frábær keppni í kvöld. Flestir veðja á að Ítalía vinni en ég er ekki alveg viss, finnst persónulega mörg lög betri. Portúgal heillaði marga á þriðjudaginn og það kæmi mér ekkert á óvart þó það lag myndi vinna. Einnig kemur hinn 17 ára gamli nafni minn Kristian frá Búlgaríu sterklega til greina eftir frammistöðu hans á fimmtudaginn. Ég held að það lag muni gera stóra hluti. Búlgaría var í 4. sæti í fyrra og verða örugglega aftur í top 5 í ár.

Belgíu er spáð mjög góðu gengi en mér fannst hún ekki nógu góð í undankeppninni þó svo að lagið sé alveg frábært. Einnig held ég líka að Svíþjóð verði mjög ofarlega því lagið er virkilega grípandi við fyrstu hlustun og atriðið flott. Það er svo spurning hvernig jóðlinu frá Rúmeníu mun ganga en það er mjög vinsælt á Eurovision síðunum og í topp 10 í veðbönkum, en það er samt ekki minn tebolli.

Uppáhalds lögin mín í kvöld eru Portúgal, Búlgaría, Ástralía, Ungverjaland, Armenía, Danmörk og Ísrael og ég vona að þeim muni öllum ganga vel.

Ég spái Ítalíu, Portúgal, Búlgaríu, Svíþjóð og Armeníu í topp 5, en það getur allt gerst og það verður mjög spennandi að fylgjast með keppninni í kvöld

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó