Ekki lengur stefnt að þrengingu Glerárgötu í aðalskipulagi


Hávær gagnrýni um þrengingu Glerárgötunnar hefur verið áberandi í umræðunni, sérstaklega nýverið eftir íbúafund í Hofi í mars sl. þar sem aðalskipulag Akureyrarbæjar var kynnt. Í skipulaginu var stefnt að því að þrengja Glerárgötuna á 550 m kafla úr fjórum akreinum í tvær.
Tryggvi Már Ingvarsson, formaður skipulagsráðs, segir í samtali við Rúv að búið sé að taka út allar greinar um þrengingu Glerárgötunnar úr aðalskipulaginu. Hann segir að með þessu sé verið að auka líkurnar á því að þrenging götunnar verði ekki leiðin, en áform um þrengingu hennar stendur enn þá í deiliskipulagi fyrir þetta svæði þó svo að búið sé að taka þetta úr aðalskipulaginu. Deiliskipulag fyrir afmörkuð svæði, líkt og Glerárgatan, tekur þó gjarnar mið af aðalskipulagi og þannig er það orðið ólíklegra að af þrengingunni verði.

Tryggvi segir einnig í samtali við Rúv að aðalskipulag þurfi að vera unnið í samvinnu og að engum sé greiði gerður með því að samþykkja mjög umdeilt skipulag sem síðan verður breytt strax eftir kosningar á næsta ári.

Ýmsar breytingar á aðalskipulaginu voru gerðar á fundi skipulagsráðs í fyrradag og þær fara nú til bæjarstjórnar sem tekur þær fyrir í byrjun september. Í framhaldinu verður aðalskipulagið auglýst með formlegum hætti og öllum gefst kostur á að skila inn athugasemdum.

 

VG

UMMÆLI