NTC

„Ekki inn í myndinni að glöð og vel gefin stelpa eins og ég gæti verið þunglynd“

„Ekki inn í myndinni að glöð og vel gefin stelpa eins og ég gæti verið þunglynd“


„Ég er aðeins öðruvísi sett saman en flestir aðrir og það er allt í lagi. Allir hafa sína sögu, sína þanka að bera og ég ber virðingu fyrir því. Ég lærði að elska sjálfa mig og vinna með sjálfri mér, ekki gegn mér,“ segir Silja Björk Björnsdóttir, 24 ára Akureyringur. Silja útskrifaðist úr Menntaskólanum á Akureyri árið 2012 en þar nam hún ferðamálafræði og tungumál. Hún er búin með eitt ár í kvikmyndafræði við HÍ en er í augnablikinu í pásu frá námi. Hún hefur unnið fyrir kvikmyndafyrirtæki og lært að vera kaffibarþjónn ásamt því að einbeita sér að skrifum og ferðaplönum en Silja er í augnablikinu að ferðast um Asíu og Ástralíu með kærasta sínum. Silja hefur glímt við þunglyndi frá árinu 2009. Við spjölluðum við hana um veikindin, lífið, bókina sem hún gefur út á næsta ári og sjónvarpsþáttaröðina Bara geðveik sem fer af stað á Stöð 2 í kvöld.

Samfélagið að taka skref í rétta átt

Silja hefur verið brautryðjandi á Íslandi í því að opna umræðuna um geðsjúkdóma. Hún segir í viðtali við Kaffið.is að frá því að hún hafi upplifað fyrstu þunglyndisköstin árið 2009 hafi gríðarlegt magn vatns runnið til sjávar og að það sé ótrúlegt að vera partur af þeirri byltingu.  „Þegar ég var að byrja að berjast við þunglyndið var þetta ekki rætt jafn mikið opinberlega. Það var ekki inn í myndinni að svona gáfuð, vel gefin stelpa eins og ég gæti verið þunglynd. Geðsjúklingur var bara uppnefni og þeir sem sóttu sér sálfræðihjálp voru allt langleiddir sjúklingar sem voru fordæmdir fyrir lyfjatöku og sjálfsmorðstilraunir.“

Silja segist sjálf hafa opnað augun fyrir þessum málefnum og að henni finnist samfélagið vera að taka skref í rétta átt. „Fólk er að deila sögum sínum og tengja við hvort annað, fordómarnir eru minni og það er auðveldara að eiga samskipti við fólk því umræðan hefur opnast og það er ekki jafn fráleitt að ræða þetta. Geðveiki er leyndarmál í nánast hverri einustu fjölskyldu – en ef móðirin fengi brjóstakrabbamein væri það líklegast ekki eins mikið feimnismál. Þetta er tímaskekkja sem þarf að laga.“

Sá enga aðra leið færa en að enda líf sitt

Silja Björk er greind með klínískt þunglyndi og nýlega greindist hún með kvíða. Þegar hún var 17 ára lenti hún í bílslysi sem hún segir hafa ,,kveikt“ upp í þunglyndinu. „Ég trúi því eins og margir sérfræðingar í sálfræði og læknavísindum að þunglyndi og aðrir sjúkdómar gangi í erfðir þannig í rauninni hef ég alltaf haft þessa sjúkdóma ,,tilbúna“ inn í mér. Það þýðir þó ekki að þegar ég fæddist hafi það legið ljóst fyrir að ég yrði geðsjúklingur. Það er alltaf samspil erfða og atburða.“ segir Silja.

Hún segir að í kjölfarið á slysinu hafi orðið til mjög mikil og ljót kjaftasaga í bænum sem hafði mikil áhrif á hana. Eftir að flestir hefðu jafnað sig og sögurnar runnar í sandinn hafi hún setið eftir með mikla og djúpa vanlíðan sem hvarf ekki. „Þetta olli því að nær öll menntaskólagangan mín einkenndist af vanlíðan, þunglyndi og sinnuleysi. Kerfið var alltaf að bregðast mér og það var aldrei gripið almennilega í mín mál, hvorki heilbrigðiskerfið né skólakerfið. Ég næ mér svo á strik eftir útskrift og fæ loksins viðunandi hjálp. Það er þó ekki þannig að maður ,,losni“ við þunglyndi eins og kvef. Þetta er ferli og æfing sem þarf að viðhalda. Maður þarf að viðhalda andlegu formi eins og líkamlegu.“ 

Eftir sambandsslit sumarið 2013 og au pair dvöl í London sem var misheppnuð að sögn Silju var hún orðin svo þunglynd að hún sá enga aðra leið færa en að enda líf sitt.  „Það tókst sem betur fer ekki og var ég í kjölfarið vistuð á geðdeild og fékk ágætishjálp á meðan dvölinni stóð. Síðustu þrjú ár eftir þetta hef ég einbeitt mér af krafti að efla fræðslu um geðsjúkdóma og stuðla að upprætingu fordóma í samfélaginu. Það er mér mikið hjartans mál að fólk opni sig og ræði um þessi mál, svo stigmað hverfi og fólk sjái sér aðrar leiðir færar út úr svartnættinu en sjálfsmorð.“

Processed with Rookie Cam

Processed with Rookie Cam


Tók sér frí frá daglegri rútínu

Í dag er Silja á kvíðastillandi lyfjum sem hún byrjaði að taka inn í apríl eftir stormasamt ár í einkalífinu. Hún fór í gegnum fjölskylduerjur, lenti í tveimur árekstrum, upplifði mikið álag í vinnu ásamt því að vera í miðjum flutningum og að skipuleggja heimsreisu. Hún segist ekki hafa upplifað þær tilfinningar áður, svona viðvarandi kvíða vegna þess að þegar hún var í viðjum þunglyndis var hún ófær um að finna til og þar af leiðandi of sinnulaus til að geta yfirleitt kviðið neinu. „Núna þegar mér er að takast þokkalega að halda svörtu hundunum í ólinni, skríður einhver kvíðapúki um innra með mér. Þá var ekkert annað í stöðunni en að fara aftur til sálfræðings, komast til botns í þessu og vinna í sjálfri mér þangað til mér fór að líða betur. Nákvæmlega eins og að hita upp fyrir maraþon eða setja sér markmið um hreysti, þá á maður að gera það sama með andlegu heilsuna. Þetta eru kannski tveir andstæðir pólar en þeir haldast í hendur og hafa gríðarleg áhrif á hvorn annan.“

Silja er stödd í Tælandi þar sem hún nýtur lífsins á eyjunni Koh Phi Phi. Hún segist vera í góðu, ástríku sambandi sem gefur henni heilmikið. Hún ákvað með kærastanum að taka sér frí frá daglegri rútínu, skoða heiminn og upplifa þær dásemdir sem ferðalög hafa upp á að bjóða áður en námsbækur, íbúðakaup og barneignir taki við. Hún er dugleg að tjá sig á öllum miðlum um mál andlegrar heilsu, jafnrétti og matarást. „Eftir áramót opna ég nýtt lífstílsblogg sem verður aðeins með öðru sniði en þau sem þekkjast á Íslandi í dag og þar mun ég bjóða upp á fyrirlestra og lífsreynslusögur. Fljótlega eftir áramót mun ég skrifa undir útgáfusamning og gefa út bók um mína reynslu af andlegri vanheilsu. Þar tala ég blaðalaust og opinskátt um þetta tímabil í mínu lífi en bókin hefur verið í vinnslu í þrjú ár.“ 

Silja er ein af viðmælendum í þáttunum Bara geðveik sem hefja göngu sína á Stöð 2 í kvöld. „Þar mun ég ásamt nokkrum öðrum stórskemmtilegum geðsjúklingum opna hjarta mitt og heimili fyrir íslensku þjóðinni með þær vonir að stuðla að bættri líðan og umræðum um hina ýmsu geðkvilla sem fólk glímir við. Annars er eg alltaf að læra og bæta mig sem manneskja, eða að minnsta kosti að reyna það. Maður verður alltaf að reyna.“

Samfélagið fordæmir enga sjúklinga jafn mikið og geðsjúklinga

Silja segist nánast einungis hafa fengið góð og jákvæð viðbrögð við öllum skrifum, fyrirlestrum og sögum sem hún hefur sagt. Hún segir það ótrúlegt hvað hún hafi fundið gríðarlega þörf frá samfélaginu um að geðsjúkdómar séu ræddir. „Ég fann sérstaklega fyrir því með #égerekkitabú því þá var eins og flóðgáttir hefðu opnast í íslensku samfélagi og fólk úr öllum stéttum lífsins, á öllum aldri og af öllum uppruna fór að deila sinni reynslu og tengja við aðra sem höfðu svipaða sögu að segja. Ég sé alltaf og fæ að heyra hvað þetta léttir á fólki, enda er ómögulegt að láta fólk burðast um með skömm og fordóma, útaf sjúkdómi sem það glímir við,“ segir Silja en hún fór af stað með átakið #égerekkitabú ásamt öðrum á sínum tíma. Þá var fólk hvatt til þess að segja sögu sína á samfélagsmiðlum og merkja með myllumerkinu #égerekkitabú.

Hún segir samfélagið ekki fordæma og véfengja neina sjúklinga jafn mikið og geðsjúklinga. „Þú heyrir aldrei sömu fáránlegu hlutina sagða við krabbameinssjúklinga, til dæmis, og eru sagðir við eða um geðveikt fólk. Þetta vil ég að hætti og ég trúi því að ekkert muni breytast í heilbrigðis- eða stjórnarkerfinu á meðan samfélagsumræðan er enn neikvæð eða lituð fordómum. Fordómar eru ekkert annað en fáfræði og ég sé það sem minn tilgang eftir þessa lífsreynslu mína að miðla því áfram til fólks að við getum öll lifað betra lífi ef við erum opinská, hreinskilin og tölum vel og fallega um hvort annað og sérstaklega þá sem eiga raunverulega bágt.“


Þunglyndið gerir yfirleitt ekki boð á undan sér

En hvaða ráð hefur Silja fyrir einstaklinga sem eru að glíma við geðsjúkdóma eins og þunglyndi? „Tjáðu þig. Opnaðu þig upp, talaðu við einhvern sem þú elskar, treystir og berð virðingu fyrir. Ekki vera hrædd eða hræddur og hugsaðu um andlegu heilsuna jafn mikið ef ekki meira en þú gerir þá líkamlegu. Leitaðu hjálpar á réttum stöðum, ekki drekkja sorgum þínum í fíkn, áfengi, mat eða kynlífi eða hverju öðru sem er sem deyfir bara sársaukann en hjálpar engu. Vertu upplýstur og heiðarlegur, ekki ljúga en vertu aðeins eins opinn og þér finnst þægilegt. Mundu að það er sægur af fólki sem hefur verið á sama stað og þú, þar á meðal ég, og þetta fólk hefur allt teymt svarta hunda í gegnum dimma dali og komið út á hinum endanum, heilt á húfi. Mundu að þú ert ekki tabú og þó að lífið sé stundum algjört ógeð þá er það þess virði að lifa því.“

Hún segir það besta sem hún geri sé að vera meðvituð um að hún sé veik. Ég er heiðarleg við sjálfa mig og aðra og afskrifa ekki tilfinningar mínar eða líðan. Það er svo mikilvægt að vera góður við sjálfan sig þegar maður vill vera í jafnvægi.“ Silja stundar jóga og líkamsrækt þegar hún er í stuði og fer reglulega til sálfræðings í hugræna atferlismeðferð. Hún tekur síðan þau lyf sem henta henni hverju sinni. Ég fel mig ekki, ég tala við fjölskyldu, vini, vinnuveitendur, ókunnuga og alla sem vilja og vilja ekki heyra um mína líðan. Þá er engin byrgði eða lygi sem hvílir á mér og ég hef rúm til að vera ég sjálf.“ Hún segir þó að þetta þýði ekki að sjúkdómurinn sé horfinn eða að hún upplifi aldrei slæma tíma. „Þunglyndið gerir yfirleitt ekki boð a undan sér en núna er ég betur í stakk búin að takast á við þessar áskoranir sem fylgja og ég hef lært að vera þakklát fyrir þessa lífsreynslu, frekar en að leyfa henni að skilgreina mig.“

 Vill veita fólki innsýn í hugarheim þunglyndissjúklings

Silja Björk gefur út sína fyrstu bók á næsta ári. Hún segist alltaf hafa verið góður penni og haft áhuga á rithöfundastarfinu og gæti vel séð fyrir sér að fá loksins borgað fyrir það sem hún er best í, að tjá sig. „Haustið 2013 flutti ég suður til Reykjavíkur og flúði eiginlega bróðurpart vandamála minna sem mér fannst bundin við Akureyri. Þá fannst mér gott að sitja með kaffibolla og skrifa niður hugsanirnar sem voru að plaga mig. Fyrst um sinn var þetta bara krot í stílabók, leið til að losa um tilfinningar og skilja þær betur. Í rauninni vatt þetta svo bara upp á sig og varð að almennilegu handriti sem ég hef unnið að í þrjú ár. Þetta er hvorki ævisaga né skáldsaga, heldur lífsreynslusaga. Þetta fjallar um þennan tíma í mínu lífi, þunglyndi, geðdeildina, ástarsorg og eigin fordóma og reyni ég að koma þessu fra mér á ljóðrænan hátt og sama tíma og ég vil veita fólki innsýn í hugarheim þunglyndissjúklings.“

Hún segir ferlið hafa í raun verið mjög mikla þerapíu fyrir sig. „Ég grét, orgaði, hló og opnaði mig um hluti sem ég hef engum sagt nema mínum nánustu og kannski sálfræðinginum mínum. Þetta hefur verið langt, sjóðandi heitt þriggja ára bað þar sem ég hef fengið tækifæri að skola af mér allskonar óuppgerðar tilfinningar. Ég veit ekki hvort ég muni nokkurntímann skrifa aðra svona bók eins og þessa en þetta er bara byrjunin á spennandi ævintýri.“

Þegar Silja kemur heim úr fríinu ætlar hún að fara í fullt að klára heimasíðu sína, siljabjork.com. Þangað til er hægt að fylgjast með mér á Facebook, Snapchat og Instagram undir notendanafninu siljabjorkk. Heimasíðan fer svo vonandi sem fyrst í loftið því í gegnum hana opnast tækifæri og ég er mað allskonar hugmyndir sem ég er spennt að koma í framkvæmd, meðal annars stuttmynd og fyrirlestraröð. En það verður allt að bíða betri tíma, enda er lífið ekki spretthlaup heldur langhlaup.“ Fljótlega eftir áramót fer hún svo á fullt að fínpússa og koma henni í sem flestar bókaverslanir og metsölulista. Hún segist gríðarlega spennt að sjá hvaða ótrúlegu dyr þessi bókaútgáfa muni opna fyrir sig. Ég er opin fyrir öllum hugmyndum og nýjum lífsreynslum.“

Við á Kaffinu hlökkum til að fylgjast með þessari kjarnakonu í framhaldinu og hvetjum alla til að horfa á þættina Bara geðveik sem fara af stað í kvöld. „Þá fá allir að sjá alveg nýja hlið á mér og öðrum geðsjúklingum og vona ég að landinn taki vel í það. En eins og skáldið sagði, enginn veit sína ævi fyrr en hún er öll og ég tek á móti öllu því sem lífið gefur og tekur, með bros á vör og svörtu hundana í taumi mér við hlið. Munum bara að lifa og njóta.“

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó