Framsókn

Ekki bara bensín á bílinn

Ekki bara bensín á bílinn

Sumir hafa eflaust heyrt myndlíkinguna um að líkami okkar sé eins og bíll. Og það á ágætlega við. Líkamar eru af ýmsum stærðum og gerðum, alveg eins og til er margar tegundir af bílum. Útlitið er hins vegar aðeins aukaatriði. Það er virkni faratækisins sem skiptir mestu máli. Við vitum að til að bílar komist á milli staða þarf að setja bensín á tankinn.  Það nákvæmlega sama gildir með líkamann.

Á síðustu áratugum hafa óteljandi rannsóknir verið framkvæmdar til að finna hvaða bensín er það besta fyrir líkamann okkar. Alls konar stærðfræðilegir útreikningar hafa verið framkvæmdir þar sem leitast er við að reikna út hvernig hið heilbrigða mataræði lítur út. Niðurstöðurnar eru ekki alltaf þær sömu og ekki allir sammála. Flestir eru þó sammála að það geti verið mjög persónubundið hvað henti hverjum og einum. En það er líka mikilvægt að taka annað með í reikninginn þegar heilbrigt mataræði er skoðað. Matur er nefninlega ekki bara matur. Matur er ekki bara bensín á bílinn til að hlúa að líkamlegri velferð okkar. Matur spilar nefninlega líka hlutverk í bæði andlegri og félagslegri heilsu.

Matur snýst ekki bara um að nærast heldur líka að njóta og tengjast öðrum. Fá sér súkkulaðibita með kaffinu. Deila pizzu með vinunum. Smakka nýbakaðar, mjúkar smákökur þó að kvöldmatur sé innan seilingar. Drekka gos og íþróttadrykki í gegnum ælupestina. Eða fá sér grillaða pylsu í útilegunni. Þetta er kannski allt fæða sem sumir myndu flokka sem ,,óholla“ en málið er flóknara en svo. Matur er ekki hollur eða óhollur. Hann er bara mismunandi. Maturinn inniheldur mismunandi næringarefni og hefur mismunandi áhrif á okkur. Það sem myndi teljast hollt í einum aðstæðum væri kannski ekki svo hollt í öðrum. Gott dæmi er að litríkt salat getur verið næringarríkt og hollt en væri það mjög heilbrigt að fara í matarboð og borða eigið salat að heiman því það er ,,hollara“ en maturinn sem er á boðstólum?

Hvernig væri að vera hlutlausari á matinn okkar. Ekki tengja gúrku bara við ,,hrein, hitaeiningasnauð afurð“ og franskar við ,,fiturík kolvetni sem mynda kransæðastíflu“. Stundum passar vel að fá sér gúrku á meðan stundum er kjörið að fá sér franskar. Það fer bara algjörlega eftir aðstæðum og löngun. En mikilvægi punkturinn er að ein fæðan er ekki endilega hollara en hin. Hún er bara mismunandi.

*There are no bad foods, only bad food habits*


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó