NTC

Ekkert mansal á Sjanghæ

Eins og Rúv greindi frá í síðustu viku voru eftirlitsmenn á leiðinni niður á veitingastaðinn Sjanghæ með túlk meðferðis til að ræða við starfsfólk og kanna hvort að um mansal væri að ræða á staðnum.

Fram kemur í tilkynningu frá Einingu-Iðju að ekkert athugavert hafi fundist við könnun þeirra og staðurinn talinn standast almenna kjarasamninga og launataxta sem gilda á veitingahúsum. Þeir benda einnig á í tilkynningunni að upplýsingar sem fram komu í fjölmiðlum hafi ekki komið frá starfsmönnum félagsins. Eingöngu hafi formaður félagsins svarað spurningum sem hann fékk frá RÚV um stöðu málsins.

Rúv segist hafa farið að grennslast fyrir um þessi mál eftir að Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdarstjóri ASÍ greindi frá ábendingum um brot á erlendum starfsmönnum í Síðdegisútvarpinu á Rás 2, 24. ágúst síðastliðinn. Þar sagðist hann hafa fengið upphringingu sama dag um kínverska starfsmenn á ótilgreindu veitingahúsi á Íslandi. Þar var fullyrt að þeir hefðu borgað hundruð þúsunda króna til að koma hér til lands og væru á kjörum hér sem teldust einungis í tugum þúsunda á mánuði. Í framhaldinu hafði fréttastofan samband við Einingu-Iðju þar sem var staðfest að það væri verið að kanna málið en þó sagt að ekkert lægi fyrir enn þá.

Það er þá víst að ekki er um mansal að ræða á veitingastaðnum Sjanghæ og Eining-Iðja segir rannsókn sinni á staðnum formlega lokið.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó