NTC

Eitthvað fyrir alla á Einni með öllu í ár

Eitthvað fyrir alla á Einni með öllu í ár

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu verður haldin um Verslunarmannahelgina dagana 29.júlí til 1.ágúst. Reikna má með að Akureyrarbær muni iða af lífi og fjöri yfir hátíðina þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þar verða fjölskyldu-, barna-, og kvöldskemmtanir um allan bæ, landsþekktir söngvarar stíga á stokk, tvö tívolí mæta í bæinn og verða staðsett á samkomuhúsflötinni, skógardagur í Kjarnaskógi, Sparitónleikarnir og aðrir viðburðir munu sjá til þess að halda lífi og fjöri í bænum. Bæjarbúar eru hvattir til að skreyta hús og götur bæjarins í rauðu yfir hátíðina,einnig er nýjung í ár þar sem gestir eru hvattir til að klæða sig upp í rauðu og smella mynd af sér. Slegið verður upp veglegum instagram leik undir myllumerkinu #rauttak.

„Við erum stolt af því að hafa fengið með okkur í lið magnaðar athafnakonur frá Akureyri til þess að stýra hátíðinni en í ár fengum við hina einu sönnu Kötu Vignis sem kynni hátíðarinnar en Kata er 24 ára hlaðvarpsstjórnandi á Akureyri þar sem hún heldur uppi spjallþættinum Farðu úr bænum. Hún hefur hlotið mikilla vinsælda þar sem hún ræðir við áhugavert fólk frá bænum. Þá fengum við einnig hana Jónínu Björt og Ívar Helga til þess að stjórna brekkusöngnum á Sparitónleikunum í ár, en Jónína er klassískur söngvari frá Akureyri sem hefur menntað sig bæði hér og út fyrir landssteinana og hefur hlotið mikilla vinsælda. Við erum því ótrúlega spennt að koma saman og syngja hástöfum í fjöldasöng eftir langan tíma af takmörkunum í samfélaginu og erum við viss um að Jónína og Ívar sjái til þess að það verði alvöru stemning á flötinni,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar.

Mikið er um tónlist yfir hátíðina en á Græna Hattinum er dagskráin ekki að verri endanum þar sem Magni, Matti Papi og Stjórnin stíga á svið og halda næturlífinu gangandi alla helgina. Í Akureyrarkirkju verður boðið upp á Óskalagatónleika með þeim Óskari Péturssyni, Eyþóri Inga Jónssyni og Ívari Helgasyni þar sem þeir syngja og spila óskalög tónleikagesta. Tónleikarnir hafa fengið frábærar undirtektir frá bæjarbúum þar sem gestir fá lagalista með nokkuð hundruð lögum og biðja svo um óskalög. Í Sjallanum verður nóg um að vera en Herra Hnetusmjör og Séra Bjössi stíga á svið, risa sveitaball með hljómsveitinni Súlum verður á laugardeginum og svo klára Páll Óskar, Birnir og Clubdub hátíðina á sunnudagskvöldið.

Það verður nóg af hreyfingu og skemmtun í boði en Norður líkamsræktarstöð verður með útiæfingu á samkomuhúsflötinni kl 11:00 á laugardagsmorgun,

Einnig verður Akureyri.bike með skemmtilega hjólaáskorun á laugardeginum þar sem samanlagður tími upp 5 brekkur í eyjafirði verður tekinn saman og einnig verða rafhjólaleikar með skemmtun fyrir rafdrifna fjallahjólarar sem takast á við 4 af skemmtilegustu brekkum bæjarins á sunnudeginum.
Evrópumótið í torfæru verður haldið á svæði bílaklúbbsins yfir helgina. Þar takast á alvöru tryllitæki og verður mikil sýning þegar þessir bílar reyna við brekkurnar.  

Það verður nóg í boði fyrir hlaupagarpa bæjarins en hlaupamótið Súlur Vertical verður með þrjár vegalengdir í boði, 18km, 28km og 55km utanvegahlaup. Hlaupið er alveg upp á Súlur og endað í miðbæ Akureyrar. Kirkjutröppuhlaupið verður haldið á föstudeginum, en hlaupið er afar vinsælt meðal krakka bæjarins, andlitsmálning verður í boði á svæðinu og tónlist.

Það verður einnig nóg í boði fyrir listunnendur og aðra áhugamenn um hönnun en á Ráðhústorginu verður markaðsstemning á laugardag og sunnudag þar sem handverk, listmunir, nýjar og gamlar vörur, skór, fatnaður og margt annað verður til sölu. Einnig verða götubitar landsins mættir að leyfa fólki að njóta sinna bita.
Í Lystigarðinum verða Mömmur og möffins með notalega stemningu þar sem möffins verður til sölu og öll innkoma viðburðarins rennur líkt og áður til fæðingardeildarinnar á Akureyri. Mömmur og möffins hefur fengið frábærar móttökur síðustu ár þar sem áhugabakarar geta tekið þátt í söfnuninni og skemmtuninni.
Söfnin í bænum verða að sjálfsögðu opin um helgina svo nóg verður um menningu og list. Mótorhjólasafnið, Listasafnið á Akureyri, Flugsafnið, Leikfangasýning í Friðbjarnarhúsi, Safnasafnið og Iðnaðarsafnið taka vel á móti gestum og gangandi. Hæfileikakeppni unga fólksins á sunnudeginum og Húlladúllan stígur á svið, ásamt skógardeginum í kjarna sem slær alltaf í gegn.

Alvöru hátíð má að sjálfsögðu ekki vanta tívolí en Sprell Tívolí og Taylor’s Tivoli hafa boðað komu sína til bæjarins yfir helgina þar sem m.a. fallturn, hringekja, hoppukastalaland og margt fleira verður í boði á samkomuhúsflötinni frá föstudegi til sunnudags. Á Glerártorgi verður haldin hæfileikakeppni unga fólksins á sunnudaginn og margir listamenn mæta þangað til að skemmta gestum og gangandi yfir þessa skemmtilegu helgi.
Skógardagurinn verður haldinn á sunnudaginn en í Kjarnaskógi verður ýmislegt í boði fyrir gesti og gangandi og þessi viðburður fer stækkandi með hverju árinu enda fátt betra en að spóka sig um í einum fallegasta skógi landsins. Föstudag og laugardag verður nýr viðburður “Akureyri er okkar” haldin en þá taka veitingamenn bæjarins sig saman og halda pop up tónleika á hverju veitingahúsi fyrir sig, fólk röltir á milli veitingahúsa og horfir á frábæra listamenn flytja sína tónlist.

Á sunnudagskvöldið er svo komið að sparitónleikunum sem haldnir verða á flötinni fyrir neðan samkomuhúsið þar sem samansafn af glæsilegu tónlistarfólki skemmtir bæjarbúum og öðrum gestum. Tilvalið að taka með sér fjölskyldu og vini, syngja hástöfum í brekkusöngnum, fylgjast með flugeldasýningunni og smábátum bæjarins sigla á pollinum. Eftir tónleikana opna svo skemmtistaðir bæjarins.

Hátíðin er enn í stöðugri mótun og fólk er eindregið til þess að kynna sér allt sem er í boði og kíkja reglulega á dagskránna inni á www.einmedollu.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó