Eiríkur Björn Björgvinsson, sviðsstjóri og fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og á Fljótsdalshéraði, leiðir lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi í komandi þingkosningum. Sigríður Ólafsdóttir, mannauðsráðgjafi og markþjálfi, mun skipa annað sæti á listanum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðreisn.
Í tilkynningunni segir:
„Eiríkur, sem er menntaður íþróttafræðingur, hefur sterk tengsl við kjördæmið. Hann var íþrótta- og tómstundafulltrúi á Egilsstöðum frá 1994 til 1996 og tók þá við starfi deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrarbæjar.
Árið 2002 var hann ráðinn bæjarstjóri sveitarfélagsins Austur-Héraðs. Tveimur árum síðar var hann ráðinn bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs sem varð til við sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi.
Eiríkur fór aftur norður þegar hann var ráðinn bæjarstjóri á Akureyri árið 2010 og gegndi því starfi í átta ár. Í dag starfar hann sem sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar.
Sigga starfaði í tæp tuttugu ár sem ráðgjafi og stjórnandi hjá Gallup/Capacent en stofnaði árið 2017 eigið ráðgjafafyrirtæki á Akureyri, Mögnum. Þar sinnir hún meðal annars markþjálfun, fræðslu og mannauðsráðgjöf.“
Tilkynnt verður um heildarlista flokksins í kjördæminu von bráðar.
UMMÆLI