NTC

Einstök fjallasýn í Hlíðarfjalli

Einstök fjallasýn í Hlíðarfjalli

Andri Teitsson, L-lista, skrifar

Á sumardaginn fyrsta kynnti Skíðafélag Akureyrar metnaðarfullar hugmyndir um nýtt og glæsilegt þjónustuhús í Hlíðarfjalli, undir yfirskriftinni „Einstök fjallasýn“. Þar yrði meðal annars félagsaðstaða fyrir allar fjórar undirdeildir SKA þ.e. alpagreinar, bretti, göngu og fjallaskíði, en einnig skrifstofur Hlíðarfjalls og starfsmannaaðstaða, miðasala, snyrtingar, skíðaleiga og verslun og síðast en ekki síst veitingastaður með glæsilegu útsýni yfir skíðasvæðið, Akureyri og Eyjafjörð.

Tímabær umræða

Hugmyndir SKA eru tímabærar enda var uppbygging á þjónustuhúsi sett í fimmta sæti á lista yfir forgangsröðun í uppbyggingu íþróttamannvirkja samkvæmt vinnuhópi sem lauk störfum haustið 2019 og þessi listi var svo staðfestur í bæjarstjórn. Þrjú fyrstu atriðin á listanum eru þegar komin í ferli þ.e. félagshús á svæði Nökkva (lokið 2021), félags- og æfingaaðstaða í Skautahöll (áætluð lok 2023) og gervigras og stúka á KA-svæði (áætluð lok 2024). Uppbygging í Hlíðarfjalli lenti framarlega á listanum af þremur ástæðum; vegna íþróttastarfsins, vegna lýðheilsu og síðast en ekki síst vegna gríðarlegs mikilvægis fyrir ferðaþjónustuna á Akureyri, einkum að vetrarlagi, þótt miklir möguleikar séu vissulega einnig varðandi sumarstarf í Hlíðarfjalli. Við sáum það rækilega á Covid-tímanum að Akureyri er langvinsælasti innanlands-áfangastaður íbúa suðvesturhornsins. Með auknu flugi beint til Akureyrar má reikna með að Hlíðarfjall fái sinn skerf af fjölgun gesta á Akureyri. Núna í mars var haldið í Hlíðarfjalli skíðagöngumót í „Scandinavian Cup“ mótaröðinni þar sem mætti margt af efnilegasta skíðafólki Norðurlanda, fólk sem er að banka á dyrnar hjá landsliðunum og mun láta að sér kveða á Ólympíuleikum í framtíðinni. Þetta var langsterkasta skíðamót sem haldið hefur verið á Íslandi. Með bættri aðstöðu í Hlíðarfjalli getum við laðað til okkar fleiri hliðstæða atburði.

Þurfum samstillt átak

Hugmyndir SKA gera ráð fyrir um það bil 1700 fm húsi sem mun væntanlega kosta um 1200 mkr. eða talsvert umfram þær 450 mkr. sem áætlað var í áðurnefndri skýrslu. Hvernig getum við brúað þetta bil? Þá er fyrsta að nefna að mikilvægt er að endurvekja samstarf við ríkið um Vetraríþróttamiðstöð Íslands í Hlíðarfjalli þar sem meðal annars var staðfest að Hlíðarfjall sé heimavöllur landsliðanna okkar í alpagreinum og skíðagöngu. Í öðru lagi er nauðsynlegt að horfa til samstarfs við einkaaðila sem kynnu að vera áhugasamir um að taka þátt í svona metnaðarfullu verkefni á afmörkuðum sviðum. Til dæmis varðandi rekstur á veitingastað/fundarsal, skíðaleigu og skíðaverslun (hjólaleiga/verslun á sumrin) og skíðakennslu. Í þriðja lagi kemur til greina að semja við öflugt fasteignafélag um byggingu hússins og að Akureyrarbær taki á leigu rými í húsinu fyrir rekstur Hlíðarfjalls og fyrir Skíðafélagið, en fasteignafélagið sjái sjálft um að finna leigjendur að öðrum þjónusturýmum.

„Þú verður að heimsækja Hlíðarfjall“

Ef vel tekst til með nýtt og glæsilegt þjónustuhús í Hlíðarfjalli þá trúi ég að svæðið verði „skylduheimsókn“ fyrir innlenda og erlenda ferðamenn á Akureyri, jafnt sumar sem vetur, og geti þannig halað inn miklar tekjur fyrir samfélagið okkar. L-listinn vill að sem fyrst verði hafist handa við að gera þessa framtíðarsýn að veruleika.

Andri Teitsson er í 4. sæti á L-Listanum á Akureyri

Sambíó

UMMÆLI