NTC

Einstefna, hámarkshraðalækkun í Gilinu? – Vilja halda stóran íbúafund 

Einstefna, hámarkshraðalækkun í Gilinu? – Vilja halda stóran íbúafund 

Umræða um framtíð Listagilsins hefur verið nokkuð áberandi síðustu vikur þegar Kaffið greindi fyrst frá því að fundur var haldinn til að ræða þá hugmynd að gera Listagilið að einstefnu. Bent hefur verið á það að margir keyra allt of hratt í Gilinu og að hávær umferð hafi áhrif á starfsemi í Gilinu sem og þá sem þar búa.
Nýtt glæsilegt listasafn opnar nú í lok ágúst og er það ein af ástæðunum fyrir því að fólk vill breytingar á umferðinni sem nú er í Gilinu.

Lækka hámarkshraða úr 50 í 30 km/klst
Í samtali við fréttastofu Rúv segir Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, að um þessar mundir sé of hratt ekið í Gilinu og að búist sé við því að gangandi umferð aukist verulega þegar safnið verður opnað og því úrbóta þörf. Hann bendir á fleiri leiðir en að gera götuna að einstefnu, t.d. með að lækka hámarkshraðann.
„Hægja á henni, það er 50 kílómetra hámarkshraði þarna núna sem er allt of mikið að mínu mati. Það væri strax skárra ef hann væri lækkaður niður í 30 kílómetra,“ segir Hlynur Hallsson, en rætt var við Hlyn á Morgunvaktinni á Rás 1.

Verðum að taka umræðuna
Neikvæðar raddir gagnvart breytingum í Gilinu hafa verið talsvert áberandi og því segir Hlynur að nauðsynlegt sé að halda stóran íbúafund til að taka umræðuna alveg og komast að niðurstöðu um þetta mál.
„Okkar tillaga er að það verði haldinn stór íbúafundur í haust, kannski í september. Þar sem að sem flestir geti komið að og það verði velt upp mismunandi möguleikum. Og ég er ekkert hræddur við það, ég held að við verðum bara að taka umræðuna. Og við komumst örugglega að einhverri niðurstöðu. Það verða ekki allir sáttir við þá niðurstöðu því sumir vilja ganga lengra heldur en aðrir,“ segir Hlynur í samtali á Rás 1.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó