NTC

Einstakar peysur frá Bergdísdesign

Einstakar peysur frá Bergdísdesign

Víða vinnur fólk verkin sín í hljóði, jafnvel þó þau eigi erindi við almenning. Dæmi um vandaðan heimilisiðnað í heimabyggð sem lítið fer fyrir en verðskuldar athygli eru prjónaafurðir Bergdísar Kristmundsdóttur. Bergdís er menntaður kjólameistari og kennari. Hún lauk sveinsprófi í kjólasaumi árið 1984 eftir þriggja ára nám við fataiðnaðardeild Iðnskólans í Reykjavík og öðlaðist meistararéttindi í greininni árið 1990. Í millitíðinni starfaði hún um nokkurra ára skeið á hönnunardeild ullariðnaðar SÍS á Akureyri.

Bergdís er búsett á Akureyri þaðan sem hún stjórnar prjónasprotanum sínum Bergdísdesign. Hún hannar og prjónar flíkur úr íslenskri ull í öllum stærðum og gerðum – peysur og tátiljur jafnt sem eyrnabönd og vettlinga. Viðskiptin fara að miklu leyti í gegnum facebook-síðu Bergdísdesign. Einnig hefur Bergdís verið með vörurnar sínar í umboðssölu í ullarvöruversluninni Fold-Önnu og fleiri verslunum.

Grenndargralið sló á þráðinn til Bergdísar og spurði hana út í prjónaskapinn í jólavertíðinni og hvaða valkostir standa áhugasömum viðskiptavinum Bergdísdesign til boða. „Það hefur verið einhver sala núna fyrir þessi jól en þó ekki svo mikið. Valkostir, ja það eru t.d. engar tvær peysur eins og því má segja að hver og ein peysa sé einstök. Þá er hægt að panta tátiljur, eyrnabönd og vettlinga í öllum mögulegum litum, allt eftir smekk hvers og eins. Áhugasamir geta haft samband við mig í gegnum síðuna mína.“

Fleiri myndir af hönnun og prjónaafurðum Bergdísar má nálgast á facebook-síðu Bergdísdesign.

Heimild: Grenndargralið.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó