„Eins og draumur að rætast“ – Stækkun á Centrum mun rúmlega tvöfalda sætafjöldaCarsten Tarnow, eigandi Centrum

„Eins og draumur að rætast“ – Stækkun á Centrum mun rúmlega tvöfalda sætafjölda

Miklar framkvæmdir eiga sér nú stað á veitingastaðnum Centrum í miðbænum, þar sem unnið er að stækkun og betrumbætingu staðarins. Markmiðið er að opna nýju rýmin í júní á þessu ári.

Eins og staðan er í dag er veitingastaðurinn Centrum staðsettur í Hafnarstræti 102, en framkvæmdirnar fela í sér að sameina það húsnæði við húsnæði sem stendur við Skipagötu 10, þ.e.a.s. gamla Pósthúsbarinn. Þannig verður hægt að ganga inn á staðinn frá báðum götunum og ganga á milli inni á staðnum.

Ófáir lesendur eiga eflaust minningar af því að ganga hér inn og fá sér drykk þegar Pósthúsbarinn var enn starfandi. Eftir nokkra mánuði verður það hægt á ný, en þó undir allt öðru nafni.

Rúmlega tvöfaldur sætafjöldi

Eins og er geta um 50 manns setist til mats inni á Centrum og um 25 manns til viðbótar setið til drykkja og léttra veitinga. Carsten Tarnow, eigandi staðarins, segir að eftir framkvæmdirnar verði pláss fyrir u.þ.b. 120 manns í mat og um 50 til 70 manns í drykki og léttar veitingar. Það er að undanskilnum útisætum, sem mun fjölga við stækkunina, en útisvæðin við staðinn munu fara frá einu upp í þrjú, einu við Hafnarstræti, einu við Skipagötu og einu í húsasundinu þar á milli. Þar að auki fjölgar klósettum fyrir gesti frá tveimur upp í sjö, eldhúsið nær tvöfaldast í stærð og nýtt og betra rými verður til fyrir starfsmenn að nota í pásum sínum.

Þetta húsasund er ekki mjög aðlaðandi í dag, en í júní verður það orðið að glæsilegu nýju útisvæði Centrum

„Eins og draumur að rætast“

Carsten Tarnow rekur ásamt konu sinni Centrum, bæði hóteið og veitingastaðinn, Strikið og Hótel Laugar. Hann flutti til Akureyrar frá Danmörku árið 2011 og hefur í mörg ár verið kunnulegt andlit í viðskiptalífi bæjarins. Hugmyndin að núverandi framkvæmdum á Centrum kveiknaði strax hjá Carsten stuttu eftir að Pósthúsbarinn lokaði. Það var þó ekki fyrr en fyrir um þrem árum síðan að ferlið fór af stað fyrir alvöru, sótt var um hin ýmsu leyfi, teikningar gerðar og svo framvegis. Það var svo loksins fyrir mánuði síðan sem ráðist var í framkvæmdir: „Þetta hefur verið langt og erfitt ferli, en nú er loksins allt að smella saman og hlutirnir komnir af stað, þetta er eins og draumur að rætast.“

Carsten leggur mikla áherslu á að nýr og endurbættur Centrum staður verður notalegur og fallegur staður að koma á. Hann segir það vanta í Akureyrska menningarflóru að hafa stað þar sem fólk yfir þrítugu getur brugðið sér út á lífið án þess að blanda sífellt geði með allra yngstu kynslóðinni, þeim sem séu á aldrinum 18 til 23 ára. Þá meinar hann yngri kynslóðinni ekkert illt, heldur tekur bara fram að eldra fólk sé oft að leita að annarri stemmingu. Nýr Centrum staður mun að hans sögn sinna þessa hlutverki, því það bætist ekki bara við nýr veitingasalur, heldur einnig nýr bar og svokallað „lounge“ rými, þar sem þægileg sæti munu bjóða upp á rólega bar stemmingu.

Gamla dansgólfið á Pósthúsbarnum mun taka á sig nýtt líf í sumar.
Sambíó

UMMÆLI

Sambíó