Einn lést í snjóflóði sem féll í Svarfaðardal

Einn lést í snjóflóði sem féll í Svarfaðardal

Einn karlmaður lést í snjóflóðinu sem féll í Svarfaðardal í gær. Í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi kemur fram að þrír menn hafi lent í flóðinu sem allir voru bandarískir ferðamenn fæddir árið 1988. Allir eru þeir sagðir hafa verið vanir fjallamenn og vel búnir.

Þeir tveir sem lifðu af hlutu alvarlega áverka í slysinu og voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri í gær. Síðar var annar þeirra fluttur á Landspítalann. Ekki er vitað um ástand hans þessa stundina.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að nú sé búið að hafa upp á aðstandendum þess látna en það hafi tekið nokkurn tíma að afla þeirra upplýsinga. Óskað hefur verið eftir aðstoð frá sendiráði Bandaríkjanna við tilkynningu andlátsins til aðstandenda mannsins.

Tilkynning um slysið barst við viðbragðsaðilum klukkan 19:10 í gærkvöldi frá einum mannanna sem lenti í flóðinu. Í kjölfar þess að þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út, var hópslysaáætlun almannavarna virkjuð og björgunarsveitir frá Dalvík, Akureyri og Siglufirði kallaðar út. Aðgerð björgunarsveitarmanna lauk fyrir miðnætti en áætlað er að um 130 viðbragðsaðilar hafi komið að aðgerðinni. Hefðbundin slysarannsókn heldur nú áfram.

VG

UMMÆLI

Sambíó