NTC

Einn handtekinn vegna andláts konu í nótt – Lögreglu grunar saknæmt athæfi

Einn handtekinn vegna andláts konu í nótt – Lögreglu grunar saknæmt athæfi

Klukkan 04:30 í nótt svaraði Lögreglan á Norðurlandi Eystra útkalli í fjölbýlishús á Akureyri. Var þar meðvitundarlaus kona sem var úrskurðuð látin á vettvangi eftir að endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. Annar einstaklingur sem var í íbúðinni var handtekinn í þágu rannsóknar málsins og grunar lögreglu að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Lögreglan á Norðurlandi Eystra setti á Facebook síðu sína klukkan 12:14 í dag, mánudaginn 22. apríl. Tilkynningin í heild sinni hljóðar svona:

Klukkan 04:30 aðfaranótt mánudags var lögreglan á Norðurlandi eystra kölluð að fjölbýlishúsi á Akureyri.

Fyrstu lögreglumönnum sem komu á vettvang var vísað á meðvitundarlausa konu í íbúðinni og hófust endurlífgunartilraunir þegar í stað. Læknir og sjúkraflutningamenn komu einnig á vettvang en tilraunir til endurlífgunar báru ekki árangur og var konan úrskurðuð látin á vettvangi.

Grunur er um að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti og hefur lögreglan hafið rannsókn. Í íbúðinni var annar einstaklingur og var hann handtekinn í þágu rannsóknar málsins og nýtur réttarstöðu sakbornings. Krafa um gæsluvarðhald yfir honum verður lögð fram fyrir dómi í dag. Rannsókn málsins er í höndum lögreglunnar á Norðurlandi eystra, sem nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Rannsókn málsins er á frumstigi og mikil vinna framundan. Vegna rannsóknarhagsmuna er ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó