Töluverður erill var hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra í nótt en þó var minna að gera hjá lögreglunni á Akureyri en á aðfaranótt sunnudags. Þetta kemur fram á vefnum mbl.is í morgun.
Þar segir að einn hafi gist fangageymslur lögreglunnar á Akureyri vegna ástands og að eitthvað hafi verið um útköll vegna hávaða og ölvunar. Það hafi þó verið mun minna en nóttina á undan.
Lögreglan á Norðurlandi eystra verður við eftirlit á þjóðvegum umdæmisins í dag en það er búist við mikilli umferð eins og venjan er á frídegi verslunarmanna þegar ferðalangar halda til síns heima eftir ferðalög helgarinnar.