Einkenni Akureyrar. Kveðja, Krasstófer og Ormur

Einkenni Akureyrar. Kveðja, Krasstófer og Ormur

Það sem einkennir Akureyri eru ekki mikið, en þó eru það nokkur einkennileg atriði, og aðallega matartengd. Pizza með bernaise og frönskum. Hamborgarar með frönskum. Pylsa án pylsu með frönskum. Pylsa með rauðkáli. Einnig eru ýmis orð sem norðlendingar nota eins og brók, eftirmatur, og baukur í stað dós, en ég hef ekki heyrt eina manneskju biðja um kók í bauk, sá hinn sami er myndi biðja um slíkt yrði húðstrýktur af bæjarbúum. Bernesinn og Bíladagar eru einnig ómissandi. En fólki líkar misvel við einkenni bæjarins, en við þurfum hreinlega að fara alla leið til þess að gera Akureyri great again.

Akureyringar þurfa öfgar. Hægt væri að gera bæinn að kántríbæ nú þegar Skagaströnd hefur sagt sig frá þeim titli. Og ekki að halda bara einhverja smá kántríhátið, heldur virkilega þröngva kántrí á bæjarbúa. Skólabúningar yrðu gallabuxur, kúrekahattur, og stígvél, að minnsta kosti átta glitsteinar (e. Rhinestones) og blaktandi kögur í vindinum. Við fengjum Magna og Rúnar Eff til þess að negla út kántrílögum. Kassadans (e. Square dance) eini leyfði dansinn, svipað og Footloose nema í stað þess að enginn dans sé leyfður þá bara kassadans. Túristar og aðrir yrðu dolfallin yfir kántríbænum AK.

Sömuleiðis með bernaise-inn. Förum alla leið þar sem öll veitingahús bjóða upp á sinn sérlagaða bernaise. Bernaise-kaffi, bernaise-ís, bernaise-kokteilar. Gosbrunnur á ráðhústorginu með benna í. Gleðileg bernais jól þar sem börnin vakna við bernaise fyllta skó upp í glugga.

En bíladagar geta verið áfram, en tökum þá þá alvarlega. Enginn hjólar í skólann, heldur keyrir. Billi bíll verður lukkudýr og hvetur unga sem aldna til þess að velja dísel. Krökkum verður skylt að læra um 6 strokkavélar, og formúlan verður sýnd í kirkjunum, og bílabænin loksins sögð fyrir allar bílferðir, því við vitum ekki hvað við höfum í greipum okkar með bílabænina. Þarfasti þjónn, þú jálkur og drösull getur gefist upp og gengið á vit forfeðra þinna. Það er nýtt tryllitæki mætt til leiks, og hann mengar svo rosalega, og hann veldur svo mörgum dauðsföllum, að þú þarft að biðja bænirnar áður en þú sest upp í hann.

Ég þekki ekki Jón Oddgeir Guðmundsson, en ég veit að þegar bílstjóri tekur hægri fótinn vafærnislegs af inngjöfinni, stígur þéttingsfast á kúplinguna og hreyfir létt við gírstönginni, þá brosir himnafaðir við Jón og kinkar kolli. Setjum hann í kóngastól um bíladaga og förum með bænina líkt og þjóðsönginn.

Sköll hinkrar á himninum á meðan þeysist Mitsubishi Outlander fram úr honum, og þessi glæsilega eiturgræna Toyota Corolla 96′ fylgir fast á hæla Hata. Gömlu goðin eru gleymd og grafin, tilbiðjum nú ferlíki á fjórum dekkjum.

Framhald í næsta blaði, þar sem við sjáum hvernig Akureyri lendir í klandri með því að nefna verslunarmannahelgarhátíðina „Eina með öllu“ og hafa hana alls ekkert pylsutengda.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó