Framsókn

Eining-Iðja sendir út yfirlýsingu vegna Sjanghæ – RÚV ber alla ábyrgðina

Veitingastaðurinn Sjanghæ er búinn að vera lokaður frá því að fréttin fór í loftið.

Mikið hefur verið fjallað um veitingastaðinn Sjanghæ síðustu vikur en eins og flestir vita greindi RÚV frá því að grunur léki á því að staðurinn væri sekur um vinnumansal. Eining-Iðja fylgdi málinu eftir og kom í ljós að ekkert athugavert fannst við starfsemi staðarins og starfsmannamál voru í samræmi við kjarasamninga.
Fréttaflutningur RÚV í málinu hefur verið mjög umdeildur síðan og spurningar vaknað um hvort að það hafi í raun verið brot á siðareglum blaðamanna að nafngreina staðinn áður en staðfesting á mansali lá fyrir. Eigandi Sjanghæ segist hafa hlotið mikinn skaða vegna fréttarinnar og hyggst líklega fara í mál við Ríkisútvarpið.

RÚV sendi frá sér í yfirlýsingu í gær þar sem Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, rekur atburðarásina og heimildirnar sem lágu að baki fréttarinnar. Í yfirlýsingunni kastar Ríkisútvarpið ábyrgð yfir á Einingu-Iðju, þar sem þau segjast hafa fengið staðfest frá félaginu að því hafi borist ábendingar um mansal og í framhaldinu segist fréttastofa hafa fengið ítrekaðar staðfestingar frá Einingu-Iðju um að verið væri að rannsaka staðinn. Þau segja fréttaflutninginn byggðan á traustum heimildum innan verkalýðshreyfingarinnar. RÚV tekur það fram að athuganir þeirra hafi leitt í ljós að Sjanghæ væri staðurinn sem væri grunaður um mansal og í kjölfarið fengið það staðfest hjá Einingu-Iðju. Í yfirlýsingunni er engin formleg afsökunarbeiðni og skýrt að þau telja Einingu-Iðju ástæðu þess að fréttin fór í loftið. Þó er tekið fram í lok yfirlýsingarinnar:
,,Að endingu er rétt að hnykkja á því að að sjálfsögðu ber fréttastofan ein ábyrgð á fréttinni og framsetningu hennar.“

Hér má sjá yfirlýsingu RÚV sem þau sendu út í gær. 

Eining-Iðja hefur nú gefið út yfirlýsingu vegna málsins þar sem þau segja Ríkisútvarpið eitt bera ábyrgð á málinu. Þar segir að það sé eingöngu á ábyrgð fréttamannsins og stofnunarinnar í heild sinni að nafngreina staðinn og þetta sé dæmi um ófagleg vinnubrögð þar sem aðeins var um grun að ræða en engar staðfestar heimildir.
Hér að neðan má lesa yfirlýsingu Einingar-Iðju í heild sinni:

Fréttastofa RÚV þarf ein að axla ábyrgðina
Yfirlýsing Einingar-Iðju 15. september 2017
Eining-Iðja, eins og önnur stéttarfélög í landinu, fær ár hvert margar ábendingar er varða starfsemi félaga á félagssvæði þess. Ábendingarnar snúa m.a. að launagreiðslum og launatöxtum, skilum á opinberum gjöldum o.fl. Allar slíkar ábendingar fara í ákveðið ferli innan félagsins, samkvæmt lögum og reglum.

Ef ákveðið er að fara í formlega heimsókn í félag/fyrirtæki og krefjast gagna er slíkt ávallt tilkynnt til lögreglu – ef eðli ábending/grunur er þess eðlis að um lögbrot gæti verið að ræða.
Lykilhugtak í öllum slíkum málum er grunur. Eina markmið stéttarfélagsins er að leiða það fram hvort grunur um misferli eigi við rök að styðjast. Gengið er út frá því við vinnslu mála af þessu tagi að þeir aðilar sem málin varða séu saklausir, þangað til annað kemur í ljós.
Frá þeirri meginreglu að allir teljist saklausir uns sekt sannast eru því miður til nokkrar undantekningar – bæði hvað varðar einstaklinga og félög/fyrirtæki. Mynd- og/eða nafnbirtingar áður en sekt sannast eru í öllum tilvikum á ábyrgð þess sem setur þær fram. Oftast er um fjölmiðla að ræða en í seinni tíð einnig einstaklinga á samfélagsmiðlum.

Það að fréttamaður Ríkisútvarpsins kaus að flytja frétt af meintu mansali með því að birta mynd af veitingastaðnum, og þar með nafn hans, er að öllu leyti hans ákvörðun og þar með á hans ábyrgð, yfirmanna hans og stofnunarinnar í heild sinni. Yfirlýsing fréttastjóra RÚV frá 14. september sl. staðfestir ofangreint því þar kemur orðið grunur þrívegis fyrir og orðið ábending jafnoft hvað varðar afskipti Einingar-Iðju af málinu – og ekkert umfram það. Starfsmenn Einingar-Iðju staðfestu aldrei annað eða meira en að ábending hefði komið fram og að grunur léki á um, að eitthvert misferli ætti sér stað. Rannsókn málsins leiddi í ljós að ábendingin átti ekki við rök að styðjast. Þau gögn sem Eining-Iðja aflaði voru í samræmi við almenna kjarasamninga og launataxta sem gilda á veitingahúsum, sbr. niðurstöður þær sem birtar voru á heimasíðu félagsins 5. september 2017.

Að reyna að skjóta ábyrgðinni af fréttaflutningi RÚV að einhverju leyti yfir á Einingu-Iðju er Ríkisútvarpinu ekki samboðið. Fréttastofa þess þarf ein að axla ábyrgð af ófaglegum vinnubrögðum sínum.

 

 

 

 

Sambíó

UMMÆLI