Ein með öllu er rótgróin viðburður sem er árlega haldinn um verslunarmannahelgina á Akureyri og í ár verður engin undantekning þar á. Það eru Vinir Akureyrar sem standa að Einni með öllu og Íslensku sumarleikunum í samvinnu við Akureyrarstofu. Vinir Akureyrar er félag hagsmunaaðila í verslun og þjónustu og stærsti hluti kostnaðar er greiddur af fyrirtækjum í bænum, smáum og stórum, sem leggja sitt að mörkum við að búa til skemmtilega stemningu í bænum. Alls eru það á annað hundrað fyrirtækja sem leggja Einni með öllu og Íslensku sumarleikunum lið og eru þannig beinir þátttakendur og stuðningsaðilar en Viðburðastofa Norðurlands sér um skipulagningu hátíðarhaldanna.
Meiri hreyfing og útivist í takt við tíðarandann á Akureyri
Í samtali við Kaffið.is segja skipuleggjendur að undirbúningur sé búinn að ganga eins og í sögu og nú sé allt orðið tilbúið fyrir helgina. Áherslur hátíðarinnar hafa breyst töluvert undanfarin ár og er nú orðin mun fjölskylduvænni viðburður en var. Íslensku sumarleikarnir og Ein með öllu stuðla að aukinni hreyfingu og útivist í bland við hefðbundna skemmtidagskrá.
„Hátíðin í ár er vissulega ekki eins og hátíðin var fyrir 15 árum þegar að Halló Akureyri var sem skemmtilegust. Í ár sjáum við Íslensku sumarleikana halda áfram að stuðla að fjölbreyttum möguleikum til þess að hreyfa sig með öðrum og Kjarnaskógur er að koma skemmtilega inn. Það verður virkilega gaman að eyða sunnudeginum um Versló í Kjarna með fjölskyldu og vinum, við bindum miklar vonir við að sú dagskrá vaxi og dafni með árunum. Eins og sjá má er breytingin að þróast í meiri hreyfingu og útivist sem er í takti við tíðarandann og Akureyri,“ segir Halldór Óli Kjartansson, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar.
70 atriði á dagskrá helgarinnar
Fjölmargir íslenskir tónlistarmenn- og konur munu stíga á svið um helgina, bæði á sviðinu á Ráðhústorgi og í tónleikahúsum bæjarins. Stærsti viðburður helgarinnar er án efa Sparitónleikarnir á leikhúsflötinni á sunnudagskvöldinu þar sem gríðarlega flott tónlistardagskrá verður á sviðinu sem endar svo með flugeldasýningu á miðnætti. Fólk er hvatt til að taka með sér teppi og jafnvel stóla, taka lagið með næsta manni og eiga eftirminnilega kvöldstund. Kynnir verður Sigyn Blöndal og fram koma m.a.: Volta, KÁ-AKÁ, Hera Björk, Dagur Sigurðsson, Emmsjé Gauti, Páll Óskar og Úlfur Úlfur.
Dynheimaballið verður á sínum stað
Ævinlega eru margir sem bíða með eftirvæntingu eftir Dynheimaballinu en árlega er haldið svokallað Dynheimaball. Um er að ræða dansleik fyrir fullorðið fólk (eldri en 30 ára) og er þá verið að vísa í félagsmiðstöðina Dynheima þar sem ungt fólk dansaði á áttunda og níunda áratugnum. N3 plötusnúðarnir munu sjá um stemninguna í Menningarhúsinu Hofi líkt og í fyrra.
„Ballið er nú þegar orðið fast í sessi sem eitt stærsta reunion fyrir heilu árgangana, þar sem „gamla“ liðið hittist og skemmtir sér saman við partýtónlist af bestu gerð. Það tókst svo vel að setja Dynheima í sparibúning í fyrra og ekki voru plötusnúðarnir verri í sínu fína pússi. Í ár var ákveðið að fara lengra með spari diskó-lúkkið og menn segja að plötusnúðarnir muni skarta tveimur settum af jakkafötum um kvöldið frá flottfot.is. Þetta er eitthvað sem hefur ekki sést áður hjá þessum strákum,“ segir Halldór.
Hverju má svo alls ekki missa af?
„Þetta er svo góð spurning að það er eiginlega ekki hægt að svara henni eins, sama hversu oft maður er spurður. Fastir liðir sem má ekki missa af eru að sjálfsögðu Sparitónleikarnir, Hátíðardagskráin á Ráðhústorgi, Mömmur og möffins, og svo margt. Í ár eru 2 tvívolí og Sirkus Íslands sem bætir vel við hátíðina. Spurningin er eiginlega hvað langar þig að gera og sjá? Þríþrautin heillar, Kjarnaskógur er eignilega eitthvað sem allir þurfa að prufa en svo er einmedollu.is biblía helgarinnar sem ég mæli með allir skoði vel,“ segir Halldór að lokum.
Dagskrá Einnar með öllu og Íslensku sumarleikana má skoða HÉR.
UMMÆLI