NTC

Ein matskeið af skynsemi eða tvær

Ein matskeið af skynsemi eða tvær

Í ferðalagi mínu frá átröskun hef ég mikið kynnt mér líkamsvirðingu. Það er boðskapur sem ég hef verið að tileinka mér. Eins og nafnið gefur til kynna snýst líkamsvirðing um að virða líkama, bæði okkar eigin en líka annarra. Og líkaminn á svo sannarlega virðingu skilið fyrir allt sem hann gerir. Líkaminn starfar viðstöðulaust dag og nótt til að halda okkur á lífi. Líkaminn gerir okkur líka kleift að framkvæma ótrúlega hluti. Dansa við fjöruga tónlist. Spila fótbolta við vinina. Klappa höndunum eftir skemmtilegt leikrit. Hrósa fólkinu í kringum okkur með fallegum orðum. Líkaminn er magnað furðuverk og minnsta sem við getum gert er að sýna honum virðingu.

Ein leið til að gera það er að hlusta á skilaboðin sem hann sendir og bregðast við þeim. Þannig að þegar líkaminn er þreyttur eða veikur þá þarf að gefa honum hvíld. Þegar líkaminn er þyrstur þarf að vökva hann. Og þegar líkamann er svangur er nauðsynlegt að gefa honum næringu. Einfalt, ekki satt?

Fyrir einstakling sem glímir við átröskun eða er með brenglað samband við mat getur verið mjög flókið að borða. Hvenær á ég að borða? Hvað á ég að borða? Og hversu mikið? Þegar ég las mér til um líkamsvirðingu fannst mér mjög rökrétt að hlusta bara á líkamann og láta hann ráða ferðinni. Fá mér að borða þegar ég var svöng. Ég hef hins vegar rekið mig á það að lausnin er ekki svona þæginleg.

Já, líkamsvirðing segir okkur að fá okkur að borða þegar við erum svöng. Þá er verið að vísa í það að við eigum að leyfa okkur mat þegar við finnum fyrir hungri. Ekki bæla niður hungrið með því að drekka vatn eða fá sér tyggjó af því að þér finnst ekki við hæfi að fá þér meiri mat. Hins vegar er líka hluti af líkamsvirðingu að hugsa um líkamann eins og litla barnið sitt. Stundum veit líkaminn ekki að hann er svangur eða saddur og þarf að fá einhvern til að segja sér til. Stundum þurfum við að hafa vit fyrir kroppnum. Það er góð regla að hlusta á líkamann en við þurfum líka nokkrar matskeiðar af skynsemi.

Það eru nefninlega margir þættir sem geta haft áhrif á og truflað matarlystina. Einstaklingar undir álagi og sem glíma við mikla streitu geta upplifað algjört lystarleysi og gleymt að borða. Eða farið í hina áttina og hætta ekki að borða. Á ferðalögum og í nýjum aðstæðum er eðlilegt að matarlystin breytist. Það er mikið um að vera og margt nýtt að sjá. Líkaminn nær þá kannski ekki að vinna almennilega úr hungurtilfinningunni. Svo eru til ýmsir sjúkdómar og lyf sem hafa áhrif á matarlystina. Sumir missa alveg áhugann á að borða mat á meðan aðrir eru sísvangir. Í öllum þessum aðstæðum er gott að hafa skynsemi með í farteskinu svo líkaminn fái þá næringu og orku sem hann þarf.

Svo má heldur ekki gleyma að stundum fáum við okkur að borða þó að líkaminn þurfi ekki endilega næringu þá stundina. En þá er það hluti af hefð eða félagslegum viðburði. Kannski er amma nýbúin að baka smákökur. Eða þér er boðið smakk úr nýrri uppskeru af berjum. Svo er fastur liður fyrir suma að fá sér ís eftir sundferðina. Matur er bensín fyrir líkamann en hann er meira en bara það. Matur er ákveðin lífsgæði. Matur er tækifæri til að tengjast öðru fólki. Vissulega borðum við mat til að næra líkamann. En við þurfum líka að borða til að næra sálina. Notum skynsemina og nærum líkamann en á sama tíma njótum lífsins.

*Food is not just eating energy. It’s an experience*


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó