NTC

#égerekkitabú er tveggja ára í dag

Frumkvöðlar #égerekkitabú, Tara, Bryndís og Silja Björk.

Samfélagsmiðlabyltingin #égerekkitabú fagnar í dag tveggja ára afmæli. Byltingin var ætluð til þess að opna umræðuna um andlega líðan og veikindi þar sem fólk deildi sinni eigin reynslu og sögum undir myllumerkinu. Það voru þrjár ungar konur, Tara, Bryndís og Silja Björk sem stóðu fyrir byltingunni þegar þær stofnuðu facebook-hópinn Geðsjúk. Meðlimir í hópnum eru tæplega 4500 talsins þar sem fólk skiptist á ráðum og reynslusögum um geðsjúkdóma. Byltingin takmarkast þó ekki eingöngu við hópinn þar sem myllumerkið dreifði sér út um allt land á öllum samfélagsmiðlum, sérstaklega á Twitter, og varð uppsprettan að opnari umræðu geðsjúkdóma í samfélaginu öllu.

Silja Björk skrifar á bloggsíðu sína siljabjork.com í dag um ferlið og árin tvö sem myllumerkið hefur verið í gangi. Þar skrifar hún:
Dagana 6. til 7.október var vart þverfótað á samfélagsmiðlum fyrir sögum undir merkinu #égerekkitabú. Fjöldi Íslendinga tók þátt í byltingunni, fólk á öllum aldri, stjórnmálamenn, rithöfundar, tónlistarfólk og listamenn, unglingar, gamalmenni og allir þar á milli virtust hafa eitthvað til málanna að leggja. Margar vináttur hina ólíklegustu einstaklinga hafa myndast út frá GEÐSJÚK-hópnum og er með sanni hægt að segja að #égerekkitabú sé orðið partur af íslenskri menningu og þjóðvitund. Geðlæknar sáu t.a.m. aukningu á komu sjúklinga á geðdeildir spítalanna í kjölfarið af byltingunni, minnst hefur verið á byltinguna á öldum ljósvakans margsinnis og hafa bæði Úlfur Úlfur og Emmsjé Gauti minnst á hana í sínum textum.

Augljóst er að #égerekkitabú byltingin hefur haft gríðarleg áhrif og heldur því vonandi áfram um komandi ár. Til hamingju með daginn geðsjúklingar!

Sambíó

UMMÆLI