Gæludýr.is

Ég var 11 ára þegar ég sagði við mömmu að ég vildi ekki lifa lengur

Ég var 11 ára þegar ég sagði við mömmu að ég vildi ekki lifa lengur

Anna Kristjana skrifar:

Mig hefur lengi langað til að segja söguna mína, segja frá öllu því sem ég hef lent í og sýna hvert ég er kominn í dag. Helsta ástæðan fyrir því að ég segi núna söguna mína er til að hjálpa mér að komast yfir mína fortíð en einnig að hjálpa öðrum að gera hið sama með sína fortíð. Ég vil segja ykkur hvernig ég upplifði æskuna mína og líf mitt til dagsins í dag.

Minnisleysið
Ég veit að ég á helling af minningum en vandamálið er að ég man þær ekki. Þegar heilinn verður fyrir áfalli lokar hann á minningarnar og áfallið sem ég varð fyrir varði það lengi að ég lokaði á flest allar æskuminningarnar mínar. Ég man miklu betur eftir því slæma sem ég varð fyrir heldur en því góða og margar af góðu minningunum skemmdust vegna þeirra slæmu. Ég geri mér grein fyrir því að þessar minningar eru þarna einhversstaðar en ég hef ekki aðgang að þeim. Það er einstaka sinnum þegar eitthvað gerist sem ég man aðeins meira, en það er örsjaldan. Í langan tíma gerði ég mér ekki grein fyrir því hvernig æskan mín virkilega var og ég trúði ekki því sem ég hafði lent í vegna þess að ég mundi ekki. Ég man ekki, og það hefur alltaf verið mitt helsta vandamál. Hins vegar man ég eitt og eitt atriði, en ekkert meira en það.

Ég man að fyrsta skóladaginn var mér sagt að þegja og að ég væri feit og að ég væri ljót.
Ég man að öllum bekknum var boðið í afmæli nema mér.
Ég man að í hvert skipti sem mamma spurði afhverju ég væri marin sagðist ég hafa dottið eða rekið mig í.
Ég man að ég fór í óteljandi læknaheimsóknir, blóðprufur og rannsóknir, af því að mér var alltaf illt i maganum en enginn vissi afhverju, af því að ég sagði aldrei neinum frá því sem var í gangi í skólanum.
Ég man að ég var heima hjá bekkjarsystur minni og bróðir hennar fór að gera grín af systur minni, ég man að ég fór grátandi heim.
Ég man að ég lagðist upp í sófa með mömmu þegar ég var 11 ára og sagði henni að ég vildi ekki lifa lengur.
Ég man að ,,vinkona” mín laug að mér.
Ég man að ég átti bara eina vinkonu sem stóð með mér frá upphafi.
Ég man að ég var 9 ára þegar besta vinkona mín sagði mér að hún vildi ekki lifa lengur.
Ég man að ég var 13 ára þegar ég komst að því að besti vinur minn ætlaði að drepa sig á 16 ára afmælisdaginn sinn.
Ég man að í hvert skipti sem eitthvað gott gerðist í lífi mínu var einhver sem fann einhverja leið til að gera það slæmt.
Ég man að loksins þegar ég hélt að lífið væri að verða ágætt þá varð það verra.
Ég man að mér leið alltaf illa.

Leikskólinn
Fyrir stuttu fór ég að lesa hvað leikskólakennararnir mínir sögðu um mig þegar ég var yngri. Það var alltaf það sama, að ég væri draumabarn, aldrei með nein vandamál. Þegar ég las þetta fattaði ég fyrst hversu illa mér virkilega leið á leikskóla. Ég var mjög mikið út af fyrir mig, lék mér annað hvort ein eða við starfsfólkið. Óendanlega mikill tími fór í það að lita, kubba eða púsla með sjálfri mér. Svo fór ég að skoða myndir. Á myndunum annað hvort sat ég ein og var að leika mér eða þetta voru hópmyndir þar sem sést greinilega að mér leið ekki vel. Flestir geta sagt frá því hvað þeim fannst skemmtilegast að gera í leikskólanum, eða hver besti vinur eða vinkona þeirra var, en ekki ég. Það eina sem ég veit um leikskólagöngu mína er það sem ég hef lesið eða heyrt frá öðrum. Ekkert meira.

Grunnskólinn
Ég átti eina vinkonu í bekknum fyrstu árin, sem sagt eina góða vinkonu. Bekkurinn var lítill og því vorum við flest ágætir vinir en það var bara ein stelpa sem ég eyddi einhverjum tíma með eftir skóla. Fyrir frímínútur lagðist ég oft í gólfið og sagði að mér væri illt í maganum, einfaldlega til að reyna að fá að sleppa við að fara út. Úti var frelsi fyrir krakkana að koma illa fram við mig þar sem lítið var fylgst með því hvað var að gerast í frímínútum. Það kom fyrir að ég reyndi að vera lengi að borða hádegismatinn minn af því að á meðan ég var að borða þá gat starfsfólkið ekki rekið mig út í frímínútur. Ég sagði mömmu frá því að það væru nokkrir krakkar sem væru alltaf að stríða mér í skólanum. Hún talaði við kennarana en það eina sem var gert var að þeim var ekki hleypt út í frímínútur í nokkra daga. Um leið og þeim var hleypt út aftur þá hélt þetta áfram eins og ekkert hafi í skorist. Ég held að það hafi verið þá sem ég hætti að segja frá, því það var sama hversu oft ég sagði frá, ekkert breyttist. Ég átti nokkrar vinkonur næstu árin en fljótlega þroskuðumst við sín í hverja áttina. Ég hætti að reyna að eignast fleiri vini og fór að gera meira af því sem mér fannst skemmtilegast, að læra og lesa. Ástæðan fyrir því að mér fannst þetta skemmtilegast er sú að þetta var, og er, mín flóttaleið. Þegar ég les eða læri er ég í mínum eigin heimi, það er ekkert utanaðkomandi sem getur truflað mig. Þetta er mín leið til að loka mig af frá öllu öðru. Vegna þess fór ég að lesa hraðar og meira, varð á undan í flestum fögum og fékk alltaf hæst í verkefnum og prófum, sem að sjálfsögðu endaði illa fyrir mig. Þau fóru að kalla mig ,,nörd” og svo til að bæta gráu ofan á svart er ég rauðhærð.

Þegar leið á skólagönguna mína batnaði þetta aðeins því flestir sem voru í því að stríða mér skiptu um skóla. Í 7. bekk byrjaði ný stelpa í bekknum. Hún var lögð í mikið einelti í gamla skólanum sínum og er að glíma við svipaðar afleiðingar og ég. Fljótlega eftir að hún byrjaði í bekknum urðum við góðar vinkonur og erum ennþá mjög nánar. Hún var sú sem stóð uppi fyrir mér þegar enginn annar gerði það. Hún er sú sem hvatti mig alltaf áfram, sama hvað ég var að gera. Hún er sú sem kom mér í gegnum restina af skólanum.

Þegar ég byrjaði í 8. bekk varð ein stærsta breytingin. Ég get ekki sagt hvað það var en allt í einu varð fólk almennilegra við mig, ég fór að standa meira upp fyrir sjálfri mér. Samt var alltaf eitthvað slæmt að gerast þarna inni á milli, bekkurinn minn var alltaf með eitthvert drama.

Þegar ég útskrifaðist úr 10. bekk tók ég eftir því hversu náinn bekkurinn okkar var. Hann var alltaf fámennur og ég held að það sé það sem gerði okkur svona náin undir lokin. Heilt yfir var grunnskólagangan mín erfið, en ég komst í gegnum hana með góðar einkunnir og góða vini.

Þrjú mikilvægustu ár lífs míns
Hver dagur er mikilvægur á sinn hátt, hvert ár er mikilvægt en það eru þrjú ár í mínu lífi sem standa mest upp úr. Þetta eru árin sem ég fór að verða betri, þegar ég fór að segja frá, leita mér hjálpar og gera eitthvað í því sem var í gangi. Þessi ár voru mjög erfið en þau voru samt sem áður mikilvægustu ár lífs míns. Ég ætla aðeins að fara nánar í hvað virkilega gerðist, hvað það var sem fékk mig til að segja frá og hvernig ég kom mér á bataveg.

2015
Það ár var ég mér afar erfitt. Ég skoðaði nýlega það sem ég setti inn á Instagram og sá hversu illa mér leið á þessum tíma, ég gerði mér aldrei grein fyrir því að mér hafi virkilega liðið svona illa. Um sumarið átti ég mjög erfitt með svefn. Ég sofnaði yfirleitt í kringum fjögur að nóttu til og vaknaði klukkan tíu. Svefnleysið fór illa í mig, mér fór að líða verr en ég sagði engum frá því. Svefnleysið hafði það líka í för með sér að ég hafði mjög mikinn tíma til að hugsa. Hugsa um allt og ekkert, sem hafði sína kosti og galla. Kostirnir voru þeir að ég hugsaði mjög mikið um hvernig mér leið, hvernig ég gæti orðið betri. Gallarnir voru hinsvegar að ég þjáðist af miklu svefnleysi sem ýtti bara undir vanlíðanina. Ég var komin í vítahring. Um haustið var ég orðin það slæm að ég mætti ekki í skólann í 2 vikur. Þá sagði ég mömmu frá því að mér liði ekki vel og að ég hafði áhyggjur af sjálfri mér, en í rauninni hafði ég áhyggjur af því hvað ég gæti gert sjálfri mér. Eftir það pantaði hún fyrir mig tíma hjá geðlækni og í kjölfar þess hitti ég tvo sálfræðinga og var greind með aðskilnaðar- og félagskvíða á háu stigi. Geðlæknirinn vildi ekki meina að ég væri þunglynd þó ég héldi öðru fram og ég geri það enn þann dag í dag. Ég var sett á lyf og lífið varð aðeins betra, eða það hélt ég. Ég fór í tvo tíma hjá öðrum sálfræðingnum og fjóra hjá hinum en gafst svo upp. Ég missti trúna á sálfræðingum. Lyfin hjálpuðu mér ekkert, ég var jafn kvíðin og áður og leið ekkert betur.

Þetta ár byrjaði ég að skera mig. Fór að hugsa um hvort það væri einhver leið til þess að forðast lífið. Fór að hugsa hvað ég gæti gert til að komast burt frá þessu öllu. Ég leitaði í líkamlegan sársauka í þeirri von að hann myndi létta á þeim andlega. Ég get, sem betur fer, líka sagt að þetta ár hætti ég að skera mig. Ég komst að því að þetta var ekki rétta leiðin. Þá byrjaði ég að segja frá.

2016
Um það bil helmingur ársins fór í það að mér leið illa en hinn helmingurinn í það að verða betri. Aftur á móti þá er þetta eitt af bestu árum lífs míns. Þetta er árið sem ég komst á rétta braut. Árið byrjaði alveg eins og árið á undan endaði, mér leið illa. Ég hafði lokað á flesta vini mína, var í stanslausum kvíða og mér leið alltaf illa. Stundum mætti ég ekki í skólann í marga daga. Ég nýtti sumarið í það að taka aðeins til í sjálfri mér, fór að hugsa um hver ég væri. Fór að hugsa um mig sem manneskju með veikindi en ekki bara veikindin í fyrsta skiptið síðan ég byrjaði á þessum lyfjum. Það tók langan tíma. Um sumarið eða haustið komst ég hægt og rólega að því að ég væri samkynhneigð, en á þeim tíma var ég ekki nógu ánægð með sjálfa mig og hafði ekki nægilegt sjálfstraust til þess að viðurkenna það, og sagði engum frá því.

Um haustið byrjaði ég í 10. bekk og varð mjög virk í félagslífinu. Eitt kvöldið var ég í félagsmiðstöðinni minni og þá kom starfskonan til mín og kynnti mig fyrir Ungmennaráði Samfés. Ég ákvað að bjóða mig fram, fór að skrifa ræðu og var kosin sem varamaður fyrir hönd Norðurlands og í viðbót við það byrjaði ég líka í Ungmennaráði Akureyrar. Nokkrum dögum eftir það kom ég fyrst út úr skápnum, sagði vinum mínum frá því ásamt því að segja mömmu það. Ég varð virkari í samfélaginu og sagði skoðanir mínar á hlutunum.

2017
Þetta var besta ár lífs míns, hingað til að minnsta kosti. Allt á uppleið. Ég var orðin virk í samfélaginu, sagði mínar skoðanir við hvert tækifæri og var almennt mjög ánægð með lífið. Í febrúar sagði ég pabba að ég væri samkynhneigð.

Ég var nýbúin að eignast fullt af vinum sem voru með mér í Ungmennaráði Samfés og ég hélt að lífið gæti ekki orðið betra. En allt sem fer upp kemur niður aftur, og því má líkja við þennan tíma. ,,Upprunalegu” vinir mínir fóru að tala um að ég væri alltaf að flakka á milli fólks, að ég gæti ekki átt sama vininn lengi í einu. Í stuttu máli; um leið og ég eignaðist fleiri vini fór allt niður á við. Ég fór til Írlands og eignaðist þar frábæra vini, fór svo til Noregs og eignaðist aðeins fleiri vini. Ég kom opinberlega og endanlega út úr skápnum um vorið, með þeirri klassísku aðferð að setja það inn á Facebook. Það er það sem stendur mest upp úr hjá mér. Ég gat loksins verið ég sjálf, sama hvar. En þó svo að það væri frábært þá var samt eitt og annað sem dró mig niður. Ég hætti á lyfjunum mínum, það eyðilagði allt. Ég var búin að byggja upp ,,system” sem virkaði með lyfjunum en um leið og ég hætti á þeim þá hrundi það. Ég var orðin mjög óörugg með sjálfa mig. Svo kom sumarið. Þá missti ég allt sjálfstraust sem ég hafði byggt upp síðastliðin tvö ár. Allt sem ég hafði gert fyrir sjálfa mig fór út um gluggann. Ég var endalaust að rífa mig niður. Sumarið endaði þannig að ég hafði ekki sjálfstraust til að borða í kringum fólk.

Um haustið byrjaði ég í Verkmenntaskólanum á Akureyri, fór á Grunndeild matvæla- og ferðagreina, og hélt að þar gæti ég byrjað alveg upp á nýtt, en svo var ekki. Ég varð kvíðin fyrir skólanum, vildi ekki mæta og missti allann metnað sem ég hafði. Ég eignaðist fullt af vinum í skólanum sem eru mér afar nákomnir en enginn þeirra var með mér í áföngum svo að í öllum áföngum þá sat ég ein. Ég fékk leyfi hjá kennurum til að vinna flest hópa- og paraverkefni ein. Ég talaði svo við námsráðgjafa um að fá að skipta um braut en það var ekki hægt. Á einum mánuði fór ég úr því að vera með 9 og 10 á öllum prófum og verkefnum yfir í það að fá 2,5 á prófi. Ég fór úr því að vera ótrúlega sterkur námsmaður yfir í það að missa allan metnað fyrir náminu. En, ég reif mig upp aftur, kláraði önnina og fór að koma á framfæri því sem ég vil breyta í samfélaginu. Fór að tala um hluti sem skipta mig máli.

Kvíðinn
Ég var svo upptekin af kvíðanum á tímabili að ég gerði ekkert í því að laga hann. Ég notaði kvíðann sem afsökun í allt því loksins var ástæða fyrir því að mér leið svona illa, ég var loksins komin með ,,greiningu”. Kvíðinn, í mínu tilfelli, tók yfir mig. Hann stjórnaði öllu, hann stjórnaði lífi mínu, og ég leyfði honum það. Ég lét eins lítið fyrir mér fara og ég gat, vildi aldrei hafa neina athygli á mér. Ég tók ekki þátt í neinu, var eiginlega alltaf heima hjá mér og í skólanum þá sat ég bara þögul og lærði. Ég fattaði það, sem betur fer, ekki svo löngu seinna að svona ætti lífið ekki að vera. Ég fór að standa upp og segja það sem brann mér á hjarta, sama hvað litla röddin í hausnum á mér sagði, ég fór að vinna í kvíðanum og það tókst. Ég fór úr því að geta varla pantað mat á veitingastöðum, að vera sammála öllu sem sagt var við mig og yfir í það að standa uppi á sviði fyrir framan nokkur hundruð manns og að tala við stjórnmálamenn um breytingar sem ég vil sjá í samfélaginu.

Mín upplifun af lífinu
Lífið er ekki dans á rósum. Í sannleika sagt er ég almennt ánægt með lífið eins og það er í dag, ég er umkringd þéttum hópi af fólki sem stendur með mér í gegnum súrt og sætt. Ég get ekki talið hversu marga vini ég hef misst en ég er þakklát fyrir að hafa kynnst hverjum einasta vini sem ég hef nokkurn tímann átt, því þeir hafa allir kennt mér eitthvað. Í hvert skipti sem mér líður vel þarf ég að minna mig á það að mér líður vel, að lífið er ekki stanslaus hamingja en í hvert skipti sem ég sit einhversstaðar, umkringd vinum mínum, hlæjandi að einhverju kjánalegu og allir í kringum okkur halda að við séum að missa vitið, þá hugsa ég með mér að svona eigi lífið að vera. Lífið er safn af slæmum og góðum hlutum, þú færð ekki annað nema hitt fylgi með.

Ég var 9 ára þegar besta vinkona mín sagði við mig að hún vildi ekki lifa lengur.
Ég var 11 ára þegar ég sagði við mömmu mína að ég vildi ekki lifa lengur.
Ég var 13 ára þegar ég komst að því að besti vinur minn ætlaði að drepa sig á 16 ára afmælisdaginn sinn. Við erum ekki vinir í dag en ég get ekki lýst því hversu mikill léttir það var þegar ég sá hann mæta í skólann eftir að hann varð 16.

Börn eiga að hlæja, leika sér og að njóta lífsins, við eigum ekki að vera að leita leiða út úr lífinu. Við erum bara börn. Í þessum aðstæðum þurftum við að þroskast hraðar en flestir bara til að halda okkur á lífi. Við erum öll á lífi í dag og ég er óendanlega þakklát fyrir það. Það munaði oft svo litlu að eitt okkar færi, en við lifum. Það eru svo mörg tilfelli í heiminum af börnum sem ákváðu að nú væri komið nóg og yfirgáfu þennan heim. Sem betur fer er þetta ekki algengt á Íslandi en þetta hefur gerst og þetta mun gerast aftur.

Af einhverjum ástæðum, þrátt fyrir allt sem ég gekk í gegnum, þá hef ég aldrei viljað fremja sjálfsmorð. Mamma sagði eitt sinn við mig að það er hægt að laga allt nema sjálfsmorð. Þessi setning hefur fylgt mér síðan þá. Oft vildi ég ekki lifa lengur, en ég vildi ekki deyja. Ég hef alltaf horft á þetta sem tímabundið vandamál, aldrei eitthvað sem mun vara að eilífu.

Þrátt fyrir allt sem gerðist þá komst ég í gegnum þetta. Ég fékk þá hjálp sem ég þurfti, ókerfisbundna hjálp. Ég byrjaði á að leita mér hjálpar hjá sálfræðingum og geðlækni en kerfið brást mér. Ég var mjög heppin að ég átti foreldra sem stóðu með mér í gegnum þetta allt, átti frábæra vinkonu sem ég gat alltaf leitað til. Þá loksins fékk ég þá aðstoð sem ég þurfti. Alltof margir hafa ekki sömu möguleika og ég. Það eru alltof margir sem geta ekki talað um það sem gengur á í lífi þeirra einfaldlega af því það er enginn sem hlustar á þau eða að þau eru hrædd um að verða dæmd fyrir vanlíðan sína.

 Afhverju ég er að skrifa þetta
Ástæðan fyrir því að ég er að skrifa þetta er að ég þarf að koma þessu frá mér, vegna þess að ofbeldi þrífst best í þögninni. Jafnvel þó að eineltið sé löngu hætt þá er ég ennþá í þögninni og það er að éta mig að innan. Ég þarf að segja frá svo að ég geti haldið áfram. Hin ástæðan fyrir því að ég er að skrifa þetta er að ég vona að ef einhver sem er að lesa þetta sem hefur lent í einhverju sjái að það er hægt að fá hjálp. Allir hafa sínar eigin leiðir sem tekur tíma að finna. Það eru til margar mismunandi leiðir til að fá hjálp, en lykillinn í þeim öllum er að segja frá, sama hversu lítið þér finnst það vera.

Mínar leiðir sem ég nota þegar ég þarf að koma einhverju frá mér eru að ég skrifa og ég tala. Ég vona að þessi saga veiti öðrum innblástur til að segja frá sinni eigin sögu.

Hver er ég í dag?
Í dag er ég margt, ég er samkynhneigð, grænmetisæta, skáti, Akureyringur, fórnarlamb, en fyrst og fremst er ég manneskja.

Ég er á lífi í dag og það er nokkrum að þakka, þau eru verðug að nefna. Ég fer reglulega í gegnum þennann lista í hausnum og hugsa um hvar ég væri án þeirra og oftar en ekki kemst ég að þeirri niðurstöðu að ef einn af þessum hlutum væri ekki þarna þá væri ég kannski ekki hérna.
Ég vil þakka Ungmennaráði Samfés, eða bara Samfés yfir höfuð, fyrir frábært ár, fyrir að leyfa mér að vera ég sjálf og fyrir að hjálpa mér að byggja upp sjálfstraustið mitt.
Ég vil þakka skátunum, því án efa þá væri ég ekki sú sem ég er í dag án þeirra.
Ég vil þakka vinum mínum, bæði þeim sem eru vinir mínir í dag og öllum þeim sem hafa einhvern tímann verið vinir mínir, einfaldlega fyrir það að vera vinir mínir.
Ég vil þakka fjölskyldunni minni, bæði þeirri sem ég fæddist inn í og þeirri sem ég valdi mér sjálf, fyrir að standa með mér í gegnum þetta allt.
Ég vil þakka mömmu minni sérstaklega fyrir að skrifa ótalmargar greinar um það hvernig hennar líf var og er, því það er minn helsti innblástur.
Ég vil þakka skátaforingjunum mínum fyrir að hafa alltaf haft trú á mér.
Ég vil þakka öllum þeim kennurum sem ég hafði í grunnskóla sem hjálpuðu mér þegar ég þurfti á því að halda.
Síðast en ekki síst vil ég þakka öllum þeim sem hafa skrifað sína eigin sögu, ég vil þakka þeim fyrir að sýna mér að sama hvað gerist, þá er alltaf von.
Ég vil þakka öllum sem gerðu mér kleift að vera sú manneskja sem ég er í dag.

Enn þann dag í dag er sumt fólk sem ég get ekki horft í augun á því það minnir mig á eitthvað slæmt, ég get ekki sagt hvað gerðist en ég get sagt nákvæmlega hvernig mér leið, því það er það eina sem ég man. Þetta er hvernig ég upplifði lífið. Hvernig ég upplifði æskuna. Þetta er mín saga og takk fyrir að gefa þér tíma til að lesa hana.

Að lokum vil ég segja tvennt, verið frábær, verið þið sjálf.

Takk fyrir.
Anna Kristjana

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó