Ég og Óðinn, Óðinn og ég!

Ég og Óðinn, Óðinn og ég!

Dýrleif Skjóldal skrifar

Opið bréf til Frístundaráðs, deildarstjóra íþróttamála og bæjarstjórnar Akureyrar.

Ég held að ég geti með sanni sagt að sá atburður sem hefur haft mest áhrif á líf mitt, fyrir utan það að fæðast og lifa, sé það að ég var send á sundnámskeið fyrir 50 árum siðan. Það var Kári Árnason sem kenndi mér á þessu námskeiði. Eftir það eyddi ég mestum frítíma mínum í sundi. Ég mátti að vísu bara fara í sund einu sinni á dag en þá fór ég bara strax eftir hádegi og var fram að kvöldmat. Í skólasundi var það svo Magnús Ólafsson sem kenndi mér framan af. Þegar ég var 10 ára  fór ég fyrst á sundæfingu til Jóhanns Möllers hjá Óðni. Þá þegar hafði ég hlotið viðurnefnið ,,selurinn” hjá strákunum í bekknum mínum. Ég æfði í 2-3 ár í Óðni. Byrjaði í yngri hóp sem var fyrir byrjendur en var strax sett í eldri hóp. Eftir að hafa farið í sveit sumarið áður en ég byrjaði í Gagnfræðaskólanum, snéri ég aftur í Óðin en þá voru allar stelpurnar sem voru 2-3 árum eldri en ég hættar svo ég gerði það bara lika.

Veturinn 1995 byrjaði svo aftur og þá sem garpur. Fljótlega fór ég svo í stjórn Óðins. Vorið 1996 fór ég örlagaríka ferð sem fararstjóri á IMÍ til Vestmannaeyja og kom heim með þjálfarann, Ruud Weldman, með botnlangabólgu. Hann fór í aðgerð og ég leysti hann af með litlu börnin. 

Um haustið byrjuðum við Karen Malmquist svo að þjálfa byrjendur. Síðan þá hef ég ekki hætt en haustið 1999 fluttist ég alfarið yfir í Glerárlaug og hef því starfað þar i 20 ár. 

Ég byrjaði með einn hóp sem fljótlega varð að þremur. Svo vatt þetta uppá sig hópunum fjölgaði þar til þeir voru orðnir átta. Eftir þrábeiðni var almenningstimanum seinkað um hálftíma til kl. 17.30 og ég fékk tvær klukkustundir aukalega þ.e. Samtals 10 klst á viku til að þjálfa í Glerárlaug. En meira fæ ég ekki, meira fær sundfélagið ekki! 

Ég hef skorið niður allar æfingar hjá öllum hópum. Þar til í haust voru hóparnir átta sem deildu þessum 10 klst. Sex af þessum átta hópum eru bara á æfingu í 30 mínútur. Æfingar hafa ekki verið auglýstar í mörg ár og alltaf lengist biðlistinn. Í haust var hann alltof langur til að komast í tvo hópa. Enn á ný bað ég um fleiri tíma og því svarað bæði seint og illa hjá bænum. Þá greip ég til þess ráðs að bjóða bara upp á æfingar einu sinni í viku í 30 mínútur. Svo nú eru hóparnir mínir orðnir 10 á þessum 10 klst. Hvaða íþróttafélag býr við slíkt á Íslandi?

Í mínum augum er staðan svona: foreldrar vilja að fjögurra og fimm ára börn þeirra séu búin að tileinka sér öryggi og hæfileika til að koma sér áfram í sundi áður en þau fara í grunnskóla. Þau sækja það stíft að koma þeim að en Glerárlaug er eina laugin á Akureyri sem hentar til þessa. Akureyrarbær hefur ekki sýnt neinn vilja til þess að koma á móts við þá kröfu.

Ég og stjórnir sundfélagsins höfum talað fyrir daufum eyrum þegar við höfum sagt að það verði að byggja nýja laug. Laug sem eðlilegast sé að staðsetja milli Nausta- og Hagahverfis enda eru börn í þeim hverfum skyldug til að læra sund og það hentar ekki umhverfinu að keyra þau öll í sund yfir hálfa Akureyri einu sinni í viku. Sú laug ætti að vera yfirbyggð 50 metra æfinga- og keppnislaug. Það er það sem vantar hér í bæ!

Ég tek undir með Inga Þór Ágústssyni yfirþjálfara Óðins sem segir í pisli sinum ,,Æfinga og kennslu aðstaðan í þessu bæjarfélagi er snýr að sundi er til skammar. Það að ekki séu nema tvær litlar innikennslu sundlaugar sem hægt er að nota yfir vetrartímann í 19 þúsund manna bæjarfélagi er bara skammarlegt. “

Félagið  var formlega stofnað 12. Sept 1962. Samkvæmt árskýrslu ÍBA 1961 borgaði félagið þó 60 kr. Í skatt það ár. Og árið eftir 103, 87 kr. og 60 kr í slysatryggingarsjóð ÍSÍ.

Í ársskýrslu frá 1969 má finna fyrstu skriflegu ósk félagsins um yfirbyggða laug. Í öll þau ár sem liðin eru hefur félagið oft endurtekið þá ósk. Tvisvar undanfarin ár hefur verið birtur listi um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri. Í fyrra sinnið var yfirbyggð laug í 3. sæti, nú er hún komin í 7.sæti. Það segir mér að ég á fyrr von á dauða mínum en því að aðstaða til æfinga og keppni í sundi verði betri hér i bæ.

Ég hef, ásamt öllu því góða fólki sem hefur verið mér samferða í sundfélaginu Óðni, barist fyrir bættri aðstöðu öll þessi ár. En ég hef fengið nóg! Lítilsvirðingin sem bæjarkerfið sýnir starfi mínu er ekki í samræmi við þá ákvörðun ykkar að veita mér heiðursviðurkenningu Íþróttaráðs fyrir nokkrum árum. Ég kæri mig ekki um þann heiður lengur og bið því um að vera strikuð út af þessum lista. Ég skila þessum heiðri til ykkar og mun fela stjórn Óðins og yfirþjálfara að koma öllum beiðnum um aukna tíma og nýja laug á framfæri við ykkur, því ég mun ekki eyða meiru af tíma mínum í að eiga við ykkur. 

Ég mun hins vegar halda áfram að sinna mínum störfum fyrir Óðinn á meðan ég hef gleði og gaman af, styðja mitt félag og sundkrakkana mína með ráðum og dáð eins og undanfarin ár.

Virðingarfyllst, Dilla.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó