NTC

Ég eyddi viku á geðdeild

Aðalbjörn Jóhannsson skrifar

Jebb. Ég eyddi viku á geðdeild LSH. Fyrir þau ykkar sem eru að velta því fyrir sér þá mæli ég eindregið með dvölinni, hún var geðveik. (Ha-Ha)

Ef þið eruð eitthvað eins og ég þá geri ég fastlega ráð fyrir að forvitnin sé að bera ykkur ofurliði og að ein spurning sé á allra vörum: Af hverju?
Ef ég hefði deilt mynd af mér í sáraumbúðum eða gifsi þá myndi enginn hika við að spyrja, en vegna þess að deildin sem ég lagðist inn á hét GEÐ-eitthvað þá hikum við. Það er tabú. Við spyrjum ekki út í svoleiðis hluti. Við erum bara ekki komin lengra.

Þetta er því mín tilraun til þess að ganga lengra. Þetta er mitt leyfi til þess að spyrja. Mín veikindi verða ekki lengur tabú. Ég hef eytt mörgum árum í að vera hræddur við álit annarra og lærði það á síðustu vikum að það verða alltaf einhverjir sem ekki höndla aðstæður, geta ekki verið til staðar og láta sig hverfa. Það hafa allir fullan rétt til þess.

Á sama tíma hef ég hinsvegar aldrei fundið jafn mikinn stuðning og skilning frá vinum og fjölskyldu. Við ykkur vil ég segja: þið björguðuð lífi mínu á fleiri en einn hátt og oftar en þið haldið. Takk fyrir að vera til staðar fyrir mig. Takk fyrir að þora að spyrja. Takk fyrir að þora að hlusta. Takk fyrir að hætta ekki að elska mig þegar ég fór að verða erfiður að elska. Í kringum mig eru ótrúlegar manneskjur. Ég elska ykkur þúsundfalt til baka.

Ég hef eytt síðustu þrettán árum í að tefla við djöfulinn. Sú skák hefur boðið upp á leiki og mótleiki þar sem þunglyndi og kvíði hafa barist við örlyndi og maníur um stærstu áhrifahlutverkin í mínu tilfinningalífi. Djöfullinn sjálfur var svo áfallastreituröskunin (PTSD) sem ég fékk sem kveðjugjöf frá öðrum djöfli sumarið sem ég var tólf ára.

Lífið er fokk erfitt og stundum er ég hræddur við allt. Stundum er það reyndar bara fínt og stundum svo fáránlega frábært að ég hætti að þurfa að sofa, tek að mér að redda heiminum, læri frönsku og skrái mig í fullt nám, fjarnám og vinnu í leiðinni með ekkert nema bjartsýni, verkefnaorku og pirring í hjarta yfir öllum neikvæðniröddum sem dirfast að segja mér að ég geti mögulega ekki verið á þremur mismunandi stöðum í einu og ætlast til þess að hafa 30 klukkustundir í hverjum sólarhring. Það endar alltaf eins. Lífið verður skyndilega fokk erfitt og stundum verð ég hræddur við allt. Félagsveran Aðalbjörn hættir skyndilega að svara símanum eða skilaboðum, hverfur sjónum og dregur sig algjörlega í eigin skel. Þar sem var áður von og bjartsýni verður að tómum klefa sem bergmálar af kvíða, þreytu, sorg og sektarkennd. Svo verður allt bara fínt aftur og hringrásin getur farið aftur af stað hvenær sem er. Sjitt hvað gaurinn er klikk.

Ég er samt ekki bara sjúkdómurinn (geðhvarfasýki eða bipolar, fyrir ykkur sem finnst gaman að gúggla) og þið sem þekkið mig vel vitið að ég hef ekkert endilega athygli til þess að tefla endalaust við sama dýrið. Ég fór því að reyna að gera eitthvað í hlutunum og endaði á því að finna yndislegan sálfræðing sem hjálpaði mér að díla við djöfulinn, þ.e. áfallastreituröskunina, og áður en ég vissi af þá fann ég magnaðar tilfinningar sem ég vissi ekki að ég ætti til því ég hafði læst þær svo kirfilega langt inni. Ég lærði að elska upp á nýtt og skyndilega fann ég fyrir nánd sem var mér áður ómöguleg. Ég bað um hjálp og hlutirnir urðu betri.

Ég átti um daginn samtal við manneskju sem mér þykir vænt um en í því samtali sagði viðkomandi að fólk yrði alltaf eins, það gæti ekki breyst. Vá, hvað hann hafði rangt fyrir sér. Ég hef breyst inn að kjarna tvisvar á ævinni. Í fyrsta skipti í hryllingi sumarið sem ég varð tólf ára. Í annað skiptið fyrir ári síðan þegar mér tókst að vinda ofan af margra ára flækju og feluleik og opna á þá manneskju sem ég er í raun og veru. Verst að ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég ætti að díla við það og það fokkaði illa í hausnum á mér, enda vanur að ganga með grímu. Niðurstaðan varð sú að þrátt fyrir að hafa tekist að hætta að tefla við djöfulinn að þá elti leikurinn mig bara samt og tilfinningasveiflurnar búnar að eiga marga góða leiki síðasta árið. Ég týndi sjálfum mér svolítið og fólkið í kringum mig fór að taka eftir því. Samverkandi atburðir síðustu vikna hjálpuðu sjúkdómnum mínum svo að þrýsta mér lengst niður í helvíti.

Stundum er það samt þannig að það er á botninum sem maður finnur kraftinn til þess að þrýsta sér upp og ég braust í gegnum eigin fordóma og bað um aðstoð. Þið vitið, eins og maður gerir þegar maður er fótbrotinn eða með lungnabólgu. Fyrst fékk ég lyf sem áttu að virka rétt. Þau virkuðu ekki rétt.
Ég endaði því á að vera lagður inn á geðdeild. Ég eyddi viku á geðdeild. Ég fékk frið, umhyggju og ást. Stuðning. Ég fékk styrk til þess að endurhugsa lífið aðeins og eins og einn hjúkrunarfræðingurinn sagði við mig: „Það þýðir ekkert að ætla sér að berjast við dreka þegar stærsti drekinn er maður sjálfur“. Eg fór að kannast aftur við sjálfan mig og fann einhvern styrk til að vera ég sjálfur sem ég var búinn að tína. Maðurinn sem kom út af geðdeild var ekki alveg sá sami og fór inn. Þetta var akkúrat staðurinn sem ég þurfti á að halda á þessum tíma og ég hvet alla til þess að hika ekki við að nýta sér þá þjónustu sem er í boði þegar hún býðst. Það kom mér einmitt á óvart að þar inni var bara allskonar fólk, engar stereótýpur og meiraðsegja eitt mjög kunnuglegt andlit sem minnti mig heldur betur á hvað „geðveiki“ er „eðlilegur“ hlutur.

Þannig að já, ég er klikk og endaði á geðdeild. Hef verið klikk frekar lengi og verð sennilega alltaf frekar klikk. Það viðgengst einhver þöggun í samfélaginu í kringum okkur sem erum frekar klikk. Ég hef sjálfur tekið mjög virkan þátt í henni og ég skammast mín svolítið fyrir það. Ekki það að enginn á heimtingu á því að heyra þína sögu EN ég trúi því fast að þegar við höfum burði og getu til þess að bæta heiminn, jafnvel á minnsta hátt, að þá berum við mikla ábyrgð.

Ég vona því að það séu einhver þarna úti sem finnst þau aðeins minna ein í heiminum, einhver sem þora kannski frekar að biðja um aðstoð þegar þau vita að við erum mörg sem höfum þurft að gera það á undan og kannski einhver sem geta horft til manns og hugsað að fyrst Aðalbjörn getur verið klikk og átt samt fanta-gott líf, því lífið mitt er svo sannarlega fáránlega frábært með endalaust mikið af yndislegu fólki í kringum mig, að fyrst ég get verið klikk en samt verið fáránlega flott týpa að þá kannski geta þau það líka.

Að endingu: Ég er ekki sérfræðingur þegar kemur að málefnum geðsjúkra þó ég sé stundum geðsjúkur sjálfur. Hinsvegar þá vil ég að allir mínir vinir og kunningjar viti að ykkur er velkomið að spyrja út í, vera forvitin og velta fyrir ykkur minni sögu, hvernig það var að vera á geðdeild og hvernig tilfinningin sé að halda stundum að aðrir heyri hugsanir manns (gerist ekki oft… heh…). Geð-eitthvað er ekki tabú. Það eru allir pínu klikk. Við þurfum bara að þora að tala um það.

Sambíó

UMMÆLI