„Ég er náttúrulega alltaf að spila og syngja“

„Ég er náttúrulega alltaf að spila og syngja“

Það er nóg um að vera hjá tónlistarmanninum Rúnari Eff þessa dagana. Í síðustu viku gaf hann út lagið Led Astray og ný plata er væntanleg í ár.

Rúnar segir í samtali við Kaffið.is að lýsa megi nýju plötunni sem kraftmikilli blöndu af Country og Suðurríkjarokki. „Tónlistin svolítið gítar drifin og melódísk, og textarnir frekar persónulegir flestir og fjalla um það sem maður hefur verið að brasa og berjast við gegnum siðustu ár,“ segir Rúnar.

Ásamt því að vinna að nýrri plötu hefur Rúnar í ýmsu að snúast, mest tengt tónlist en einnig íshokkí.

„Ég er náttúrulega alltaf að spila og syngja, er í raun að allar helgar, og út um allt land. Hef verið að spila aðeins erlendis líka á síðustu árum, þá aðalega í Bandaríkjunum td. Í Houston, Jefferson, Nashville, Las Vegas svo eitthvað sé nefnt. Eitthvað aðeins farið til Evrópu að skemmta líka. Svo er ég alltaf með puttana í íshokkíinu lika, er umsjónarmaður U18, U20 og karlalandsliðana, ásamt þvi að vera í þjálfarateymi karlalandsliðsins. Svo það er nóg að gera.“

Vinna við nýju plötuna hófst árið 2017 en Rúnar segist hafa lent á hálfgerðum vegg um það leyti og að hann hafi komið litlu sem engu í verk síðustu ár. Eftir mikla sjálfsvinnu hefur hann safnað nægri orku til þess að halda áfram vinnu plötunnar.

„Ég er bara búinn að vera í mikilli sjálfsvinnu og reyna að rétta aðeins úr kútnum hvað varðar andlega heilsu. Svo núna undanfarið þá hefur verið mikill kraftur í mér bæði við lagasmíðar og upptökur, svo platan er bara langt komin og kemur út á þessu ári.“

Rúnar segist spenntur fyrir því að koma plötunni loks frá sér og stoltur af því hvernig allt saman er farið að hljóma.

„Ég, og bara allir þeir sem koma að þessu með mér eru búnir að leggja blóð svita og tár í að gera þetta sem allra best. Fyrsta smáskífan sem ég sendi frá mér „Texas Bound“ fékk frábærar viðtökur, og svo er „Led Astray“ sem ég var að senda frá mér núna að fá enn betri viðtökur, er til dæmis komið í um 5000 spilanir á Spotify á örfáum dögum.“

Rúnar segir að planið sé að vera áfram duglegur að spila tónlist sína eftir að vinnan við plötuna klárast.

„Ég er að fara til Boston núna í febrúar og svo bara á fullt hér heima eftir það. Svo er ég í raun búinn að semja allt efni á aðra plötu sem kemur væntanlega út á næsta ári, og er byrjaður að taka upp grunna af lögunum. Svo ég verð líklegast að reyna að vera duglegur í hljóðverinu líka. Sú plata er allt öðruvísi en það sem ég er að gera núna.“

Sambíó
Sambíó